149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

svar við fyrirspurn.

[13:34]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kem í pontu til að taka undir ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar. Eftir því sem ég kemst næst í skjölum er fyrirspurnin lögð fram 26. febrúar sl. og samkvæmt meginreglu stjórnsýslulaga á að svara slíkum fyrirspurnum innan 15 daga. Svarið sem kemur frá hæstv. félagsmálaráðherra berst síðan 24. maí 2018, seint, eftir dúk og disk, leyfi ég mér að segja. Svarið sem berst er ekki svar við þeirri fyrirspurn sem lögð var inn sem var: Hversu margar fullnustueignir seldi Íbúðalánasjóður árlega 2008–2017? Hvar voru þessar eignir? Hvert var heildarsöluverð á hverju ári? Og í annan stað: Hverjir voru kaupendur? Upplýsingar óskast annars vegar um einstaklinga og hins vegar um fyrirtæki og eignarhald þeirra.

Persónuvernd hefur skilað svari og segir að málið sé ekki á þeirra færi. Við skulum hafa í huga (Forseti hringir.) að á bak við þetta eru 3.600 íbúðir og 3.600 fjölskyldur sem misstu heimili sín.