149. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2018.

Íslandspóstur.

[14:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér er erfitt mál til umfjöllunar en í umsögn Ríkisendurskoðunar um frumvarp til fjáraukalaga 2018 segir:

„Almennt er óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda félagsins þannig að tilskilinn árangur náist áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins. Fyrir þarf að liggja fyrir hvort og þá hver fjárhagsvandinn sé vegna einkaréttarhluta starfseminnar, […] vegna alþjónustukvaða sem lagðar eru á fyrirtækið eða vegna samkeppnisstarfsemi sem það stundar. Þeir möguleikar sem fyrir hendi eru til að takast á við vandann hljóta að ráðast að miklu leyti af niðurstöðu slíkrar greiningar.“

Ríkisendurskoðun fær ekki slíka greiningu. Fjárlaganefnd fær ekki slíka greiningu. Alþingi fær ekki slíka greiningu. Þetta er endurlán. Í frumvarpi til fjáraukalaga er lögð til breyting á 2. tölulið 5. gr. fjárlaga, sem er um endurlán ríkisins. Endurlán ríkisins fjalla um ríkisábyrgðir, það stendur í ríkisábyrgðalögum að ákvæði þeirra laga gildi einnig um endurlán ríkissjóðs eftir því sem við á. Samt fáum við ekki umsögn Ríkisábyrgðasjóðs um það hvernig stendur á þessu láni, hvort það uppfylli öll skilyrði um lög um ríkisábyrgðir. Það vantar greiningu á því af hverju vaxtaupphæðin er eins og hún er því eins og kom fram í máli framsögumanns eru ekki markaðsforsendur fyrir því lengur að fá lán hjá viðskiptabanka félagsins. Þá hljóta vaxtaforsendurnar að breytast en samt er tekið fram að vextirnir á láninu sem Íslandspóstur fær séu einmitt á markaðsforsendum, á þeim kjörum sem það hefur fengið í upphafi ársins. Við erum á þeim stað að það er verið að endurlána núna 1.500 milljónir sem geta ekki verið neitt annað en styrkur, ríkisstyrkur. Það er ekkert fyrirséð að Íslandspóstur nái að endurgreiða þetta lán og, eins og ég hef sagt áður, ef hann nær að endurgreiða lánið þarf hann bara enn frekari ríkisstyrk í kjölfarið út af (Forseti hringir.) þessu undirliggjandi vandamáli sem er ekki lausn á.