149. löggjafarþing — 50. fundur,  13. des. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[19:10]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, það þurfa að vera til góðar bækur, það er alveg hárrétt, og það þurfa að vera aðgengilegar góðar bækur. En ég held að til þess að til séu góðar bækur þá þurfi líka að vera til vondar bækur og það þurfa að vera til þokkalegar bækur og það þurfa að vera til alls konar bækur. Þetta þarf með öðrum orðum að vera akur. Þetta þarf að vera gróskumikill akur þar sem vaxa alls konar blóm og eins og ég skil þetta frumvarp er verið að reyna að búa svo í haginn fyrir þennan akur að þar geti fleira blómstrað og fleira dafnað og fleira vaxið, en allt kafni ekki bara vegna erfiðra ytri aðstæðna og að íslenskur bókamarkaður verði ekki eins og einhver berangur.

Nú skal ég fara að hætta þessu líkingamáli. Það sem ég á við er fyrst og fremst, og ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um það, að keppikefli okkar sé að efla íslenskan bókamarkað þannig að þar geti orðið til góðar bækur sem efli tungu okkar og menningu og eins séu til þess fallnar að auka þekkingu ungs fólks.