149. löggjafarþing — 51. fundur,  14. des. 2018.

veiting ríkisborgararéttar.

479. mál
[12:10]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Herra forseti. Ég flyt mál sem er á þskj. 749, frumvarp til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Ég vísa til þingskjalsins varðandi þau nöfn sem hér um ræðir. Þetta eru 26 einstaklingar að viðbættum nokkrum börnum.

Það kann að vekja athygli að verið er að veita talsvert færri einstaklingum ríkisborgararétt með lögum að þessu sinni en gert var t.d. síðast. Þetta er nálægt því að vera þriðjungur af þeirri tölu eða jafnvel fjórðungur, en það skýrist m.a. af því að þingið og nefndin, hv. allsherjar- og menntamálanefnd, freistar þess að ná betur utan um þessa hluti þar sem þróunin hefur verið sú um nokkurra ára skeið að þessi leið til að öðlast íslenskan ríkisborgararétt hefur verið að breytast frá því sem lögin um þetta gera ráð fyrir, að þetta sé undantekningarleið til að bregðast við sérstökum tilvikum í að vera nokkurs konar hjáleið eða flýtileið í þessu skyni.

Því hefur allsherjar- og menntamálanefnd og hæstv. dómsmálaráðherra, og síðan með atbeina Útlendingastofnunar, verið að endurskoða þau lög og hvernig má gera tilhlýðilegar breytingar á lögunum um þetta til að þau nái betur utan um upphaflegt markmið sitt og að veita þá Útlendingastofnun hugsanlega rýmri heimildir til að afgreiða á stjórnsýslustigi umsóknir af þessu tagi til að það megi verða til að fækka þeim sem koma til afgreiðslu hjá Alþingi.

Það eru langleiðina í 300 umsóknir sem bárust Alþingi að þessu sinni og þá sjá menn í hendi sér að þetta er a.m.k. ekki sú undantekningarleið sem lögin gerðu ráð fyrir í upphafi. Þetta er sem sagt í endurskoðun og væntum við þess að ný eða breytt lög um þessi efni hafi tekið gildi þegar þetta kemur næst til álita í þinginu.

En þessi tillaga liggur fyrir. Nefndin leggur til að þeim 26 umsækjendum sem er að finna á fyrrgreindu þingskjali verði veittur ríkisborgararéttur að þessu sinni.