149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

listaverk í eigu Seðlabankans.

[14:10]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrir mér er þetta mál tvíþætt og kannski þríþætt út af fyrirspurn hv. þingmanns. Í fyrsta lagi er það svo að ég er mikill talsmaður listræns frelsis og tel að við eigum aldrei að skerða hið listræna frelsi. Það er grundvallarsjónarmið í mínum huga. Í öðru lagi tengist fréttaflutningur af listaverkaflutningum innan Seðlabanka Íslands því að viðkomandi listaverk hafi á þeim stað þar sem það var og í því samhengi sem það var þar haft áhrif á líðan starfsmanna. Þá finnst mér það vera úrlausnarefni viðkomandi stofnunar, Seðlabankans, að tryggja að listaverk séu til sýnis í þeim rýmum þar sem þau hafa ekki þau áhrif að vera sett í óþægilegt samhengi fyrir viðkomandi starfsmenn. Ég hef fullan skilning á því að list geti stuðað og mér finnst mikilvægt að stofnanir ríkisins sýni starfsmönnum sínum nærgætni og tilhlýðilega tillitssemi, en um leið er ég alfarið á móti því að listaverk sem sýna nekt, eða hvað það nú er, eða pólitísk skilaboð, við getum tekið hýpótetísk dæmi um pólitísk skilaboð — ég er með eitt slíkt verk upp á vegg hjá mér. Það stuðar vafalaust einhverja sem þangað koma en það er allt í lagi, þá koma þeir bara ekki aftur heim til mín. En í opinberri stofnun eða á opinberum vinnustað skiptir auðvitað máli að starfsmönnum sé sýnd ákveðin nærgætni.

Hv. þingmaður spyr: Á Seðlabankinn að afhenda Listasafni Íslands listaverkasafn sitt? Ég veit ekki betur en að Seðlabankinn búi vel að listaverkasafni sínu. Þau ætla að hafa verkin til sýnis á safnanótt þar sem ég verð gestur þeirra, þann 8. febrúar, og geta vafalaust búið vel að því safni. En mér finnst mikilvægt að ákvarðanir (Forseti hringir.) viðkomandi stofnunar stjórnist af báðum þeim sjónarmiðum sem ég rakti áðan.