149. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2019.

listaverk í eigu Seðlabankans.

[14:12]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vil nota tækifærið og nefna úr því að umræðan hefur spunnist um verk eftir Gunnlaug Blöndal að við njótum verka Gunnlaugs í Alþingishúsinu. Þar ber auðvitað sérstaklega að nefna mynd hans af þjóðfundinum 1851 í anddyri þinghússins þar sem hann dregur ljóslega fram hina glæstu forystu Jóns Sigurðssonar á þeirri stóru stund, örlagastund í sögu íslensku þjóðarinnar. Þekkja má alla þjóðfundarmenn á myndinni, þeir voru tveir úr hverri sýslu, og ef ég má langar mig að segja á persónulegu nótunum að ég orna mér stundum við það að vera afkomandi eins þeirra.