149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

skerðing bóta TR vegna búsetu erlendis.

[10:49]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka svörin en af þeim get ég ekki séð hvenær eigi að byrja að greiða samkvæmt nýjum útreikningum, sem þýðir að væntanlega eigi að halda áfram að brjóta á þeim hópi þangað til — hvað? Hverjar er forsendurnar? Hvað er verið að gera með þessa tímalínu og af hverju tekur þetta þennan tíma? Ég skil vel að það taki tíma þegar kemur að endurgreiðslunum en ég skil ekki af hverju er ekki hægt að fara að greiða fólki löglega, samkvæmt lögum, og það strax.

Hvað veldur því að ekki er hægt að fara í þær aðgerðir að breyta því til framtíðar strax?

Ráðherrann talar um fjögur ár. Komið hefur í ljós að þar er verið að bera fyrir sig fyrningu, að þetta sé fyrnt og þess vegna sé ekki farið tíu ár aftur í tímann eins og hagsmunasamtök fara fram á. Er ráðherra skylt á einhvern hátt að bera fyrir sig fyrningu eða er þetta bara ákvörðun? Er það pólitísk ákvörðun eða skylda? Hvers vegna er þetta ákveðið?

Hvers vegna er aðeins verið að greiða fjögur ár en ekki tíu? (Forseti hringir.) Öryrkjabandalagið hefur tekið eftir þessu síðan 2009. Þá var byrjað að taka mjög hart á því og skerða fólk alveg svakalega. Hver er réttlætingin fyrir því að greiða ekki tíu ár aftur í tímann?