149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

stjórnsýslulög.

493. mál
[14:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt að frumvarpið er í fyrsta lagi upphaflega samið af Páli Hreinssyni. Síðan unnið með það í nefndinni sem ég nefndi hér áðan, sem er undir forystu Eiríks Jónssonar. Síðan var það að nýju borið undir Pál Hreinsson, svo öllu sé haldið til haga.

Búið er að vanda mjög til verka, að ég tel.

Sú athugasemd sem hv. þingmaður gerir varðandi ákvæðið sem svo hljóðar, með leyfi forseta:

„Þegar upplýsingar sem eru háðar þagnarskyldu hafa verið gerðar opinberar á löglegan hátt …“

Svo er tiltekið:

„… svo sem þegar maður hefur augljóslega sjálfur gert upplýsingar opinberar um sig, fellur þagnarskyldan niður frá og með slíkri birtingu.“

Í sjálfu sér liggur þetta nokkuð skýrt fyrir. Það má spyrja sig hvort hv. þingmaður sé þarna að spyrja út í orðin „svo sem“ sem þarna er vísað til. Það liggur fyrir að ef ég kýs að afhjúpa opinberlega tiltekin heilsufarsvandamál, tökum sem dæmi að ég segi að ég þjáist af astma, svo ég aflétti þeim þagnarskylduupplýsingum hér og nú í ræðustól Alþingis, er ég um leið væntanlega að aflétta þagnarskyldu.

En það kann að vera að hv. þingmaður sé þá að hugsa um hvort það geti verið einhver önnur tilvik þar sem þagnarskyldu er aflétt en þegar maður sjálfur kýs að afhjúpa slíkar trúnaðarupplýsingar um sig.