149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og ég vil þakka fyrir hana. Það er frábært að fá stefnuna hingað inn og sérstaklega að fá hana til velferðarnefndar og taka á henni þar. Eins og áður hefur komið fram bárust 27 umsagnir vegna draga að þessari heilbrigðisáætlun. Hún á að tryggja almennt öryggi heilbrigðisþjónustunnar, en ekki eru allir sammála um hvernig sú þjónusta verði tryggð. Þess vegna hafa komið ýmsar athugasemdir við drögin, eins og ég segi, 27 umsagnir.

Það kom, veit ég, umsögn frá Sambandi sveitarfélaga þar sem það furðaði sig eitthvað á samráðsleysi og Læknafélagið var einnig eitthvað að taka á því líka. Það er bara eitthvað sem við tökum á og sjáum til þess að þeir fái að tjá sig að vild. Við þurfum líka að tryggja og horfa vel og vendilega á atriði í sambandi við fatlaða einstaklinga. Þroskahjálp gerði athugasemdir vegna þess að þeir þar hafa áhyggjur af sínu fólki. Við vitum hversu viðkvæmur sá hópur er sem þar er undir. Þá er einnig einhver óánægja með bráðaþjónustu sjúkrahúsa og það verður líka að segja um bráðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, sem þarf einnig að fylgjast vel með og taka vel á. Við höfum stóran hóp fólks, langveiks fólks, og fylgjast þarf vel og vendilega með þeim hóp.

En það er líka annað í heilbrigðiskerfinu. Ég verð að segja eins og er að við höfum frábært heilbrigðiskerfi og því til sönnunar er að ég get staðið í þessu púlti. Ég stæði ekki í þessu púlti og héldi ræðu ef við værum ekki með frábært heilbrigðiskerfi. Það sýnir okkur að við höfum gott heilbrigðiskerfi, en við þurfum líka að passa okkur. Mesta hættan sem ég sé er biðlistar. Að vera á biðlista í einn, tvo, þrjá mánuði, það lifa það allir af. En þegar komið er ár eða meira þá er það farið að valda viðkomandi einstaklingi stórtjóni. Þetta megum við ekki láta gerast vegna þess að það er ekki ásættanlegt að einhver aðili bíði í heilt ár og gleypi þúsundir taflna og sé jafnvel með aukaverkanir af viðkomandi töflum sem valda hreinlega skaða. Þá erum við farin að vinna gegn markmiðum læknalaga og annarra laga um að fólk eigi rétt á þjónustu.

Það er líka annað sem við þurfum að taka á og hafa áhyggjur af, en það eru sóttvarnir, hvernig við ætlum að gera heildræna sýn vegna sóttvarna. Þar er ýmis vá sem þarf að kortleggja.

Krabbameinsfélag Íslands hefur bent á að betri greiningu vanti vegna meðferða og aukinna krabbameinstilfella og líka vegna þess að alltaf er að verða meiri og meiri tækni til þess að lækna.

Geðheilbrigðismálin. Það er stór þáttur sem við þurfum að huga vel að. Því miður eru þau mál ekki í nógu góðu standi eins og þau eru í dag. Við vitum að geðheilbrigðismálin eru næststærsti póstur örorku. Þar af leiðandi verðum við að taka vel og vendilega á þeim málum og gera geðheilbrigðisþjónustuna algjörlega kostnaðarlausa svo að allir geti nýtt sér þá þjónustu og þá helst á rauntíma.

Einnig er óásættanlegt að ef maður tekur upp símann og ætlar að hringja og panta tíma hjá heimilislækni kemur tilkynning um að maður fái tíma í fyrsta lagi eftir rúman mánuð. Það gengur ekki upp. Það er eitthvað að slíku kerfi. Þá þarf auðvitað að greina það og taka á svoleiðis hlutum einn, tveir og þrír.

Síðan er fjarþjónusta yfir netið. Við þurfum að nýta hana betur. Ég man þegar ég fór að hugsa um þessa fjarþjónustu yfir netið hvernig nágrannar okkar á Grænlandi gerðu. Þeir voru komnir með einhverja færanlega vél sem var hægt að gera ýmsa hluti með í afskekktum byggðum. Þetta var mjög sniðug aðferð og hlutfallslega mjög ódýr og gaf ákveðið öryggi að ákveðnu marki og er auðvitað það sem við þurfum líka að gera eitthvað í.

Síðan er annað sem er mér líka svolítið hugleikið og það er sjúkraþjálfun. Það er stór póstur í því að koma fólki aftur til virkni — og látið mig vita það. Ég hef farið í ófá skiptin í sjúkraþjálfun. Það er líka eitt af þeim atriðum sem gera það mögulegt að ég get verið hér. Við eigum að stórauka sjúkraþjálfun, en því miður eru gífurlegir biðlistar í dag eftir sjúkraþjálfun. Við þurfum einhvern veginn að fjölga sjúkraþjálfurum og taka á þeim vanda.

Síðan er annað, sem er alvarlegt, en það eru sjúkraskrár. Það er mjög alvarlegt mál og mér er gersamlega óskiljanlegt að það skuli enn þann dag í dag vera þannig ástatt að læknar á vegum tryggingafélaga séu starfandi á sjúkrahúsum og hafi óheftan aðgang að sjúkraskrám fyrir tryggingafélögin. Það er ömurlegt frá öllu ömurlegu að lesa um sig í niðurstöðu mats tryggingafélags um að þetta og hitt hafi sést í sjúkraskrám. Fólk hefur ekki einu sinni hugmynd um það og þarf að fara að tékka á því hvort það sé rétt, og kemst þá að því að einstaklingar, sem voru fullkomlega að vinna fyrir viðkomandi tryggingafélag, gátu labbað úr sinni skrifstofu inn á viðkomandi spítala og náð í þau gögn sem þeim hentaði. Svona opnar sjúkraskrár eru óþolandi og það á ekki að líðast. Þarna er verið að brjóta illa á réttindum fólks sem getur ekki varið sig.

Það er ótrúlega mikið um umferðarslys og fólk sem lendir í umferðarslysum þarf sjúkrahúsþjónustu. Ef það eru erlendir aðilar er virkjuð eining um það hvað kostar að lækna viðkomandi og sendir eru út reikningar fyrir því. Ef það er íslenskur ríkisborgari er enginn reikningur, þá er það bara sjúkrahúsþjónustan sem tekur við. Mér finnst að við eigum að horfa til þess að við erum byrjuð aftur að safna í sjóði hjá tryggingafélögum, svokallaða bótasjóði, sem við vitum hvernig fór með í hruninu, þeir hurfu af landi brott. Þetta eru sjóðir sem við eigum að gera upp með reglulegu millibili og nýta þá fjármuni til að efla heilbrigðisþjónustuna. Vegna þess að það er auðvitað ekki ósanngjarnt að tryggingafélögin borgi fyrir tjón sem verður, heldur borgi líka sjúkrahúsþjónustuna. Það er bara sanngjarnt og að það gildi ekki einungis um erlenda heldur líka innlenda.

Það er hægt að tala helling í viðbót um þessa stefnu. En eins og ég segi, það er mjög gott að hún sé komin fram og gott að fá hana yfir í velferðarnefnd og það verður gaman að fá fólk í heimsókn sem hefur gagnrýnt stefnuna og vill koma hlutum að. Við munum taka á móti því og vonandi komum við því þannig frá okkur að við verðum stolt af okkar heilbrigðisstefnu og komum hlutum í eins gott lag og hægt er.