149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:47]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með fjölmörgum öðrum hv. þingmönnum og fagna því að við séum að ræða þessa stefnu. Þetta er vissulega mikilvægt innlegg í umræðuna. Ég verð að viðurkenna að við fyrstu sýn finnst mér megingalli stefnunnar vera sá að hún er mjög almennt orðuð. Margt mjög fínt og flest þannig fram sett að erfitt væri að setja sig á móti því, en það er afskaplega erfitt að festa hendur á því nákvæmlega hvert er verið að fara. Það sem ég finn helst að stefnunni sem við eigum að ræða hér er að það vantar allt stöðumat og greiningu. Það vantar í raun og veru lýsingu á því hvar skórinn kreppir helst, hvernig við metum það og hvernig við ætlum að ráða bót á því. Ég hafði bundið vonir við það að við værum að leggja hér fyrstu drög að t.d. gæðavísum og skilvirknivísum í heilbrigðiskerfinu þannig að við næðum að leggja mat á það hversu vel það þjónar okkur í dag, hverjir helstu annmarkar þess eru og hvernig við ætlum að ráða bót á þeim. Stefna í hvaða málaflokki sem er byggir jú alltaf á því að meta hvar við erum stödd, hvert við ætlum að fara og hvernig við ætlum að komast þangað. Í öllum tilvikum finnst mér vanta mælikvarðana, grunnmælinguna á því hvar við erum stödd, hver markmið okkar eru í viðkomandi málaflokkum og hvernig við ætlum síðan að ráða bót á því. Vafalítið munum við sjá meira farið út í slíka sálma í fimm ára áætlunum hæstv. ráðherra sem er hið besta mál. Ég hefði hins vegar gjarnan viljað sjá í þessu meginskjali fyrstu drög að slíkum mælikvörðum. Það er nefnilega í mínum huga, og tala þar út frá þeirri reynslu minni að hafa setið í fjárlaganefnd, kannski helsti vankanturinn í heilbrigðiskerfinu að við höfum mjög óljósa hugmynd um heildarskilvirkni þess eða hvort fjármunum sé vel varið, hvar þeim sé best varið og hvaða árangri auknar fjárveitingar til ákveðinna sviða heilbrigðiskerfisins skila.

Annað sem ég sakna í stefnunni er að ég hefði viljað sjá miklu meiri umræðu um það og frekari markmiðssetningu í því sem kalla mætti að fjárfesta í heilsu en ekki bara heilbrigðiskerfi. Það væri horft á skýrari markmiðssetningu, t.d. í samvinnu heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis eða félagsþjónustunnar og sveitarfélaga á því stigi, og samtengingu við forvirkar aðgerðir, fræðslu, ýmiss konar lýðheilsuátök, jafnvel tengingu við markmið okkar um lýðheilsu, eins og t.d. álagningu á áfengi og tóbak o.s.frv., hvort við eigum jafnvel að beita fleiri slíkum aðgerðum til að ná fram markmiðum um lýðheilsu eða ekki.

Allt snýr þetta að því sama. Stærstu tækifærin okkar til bættrar heilsu landsmanna felast auðvitað í þessu. Við erum í grunninn með mjög gott heilbrigðiskerfi þó svo að margt megi þar bæta og margt þurfi að bæta, en sennilega eru stærstu tækifærin okkar, mikilvægustu verkefni okkar á komandi árum og áratugum, hvernig við aukum fjárfestingu í heilsu, í forvirkum aðgerðum. Hér var t.d. lagt fram á dögunum ágætisfrumvarp um að sálfræðiþjónusta verði felld undir sjúkratryggingar til þess að efla áherslu á geðheilbrigðisþjónustuna hjá okkur. Við höfum talað um framlög til sjúkraþjálfunar til að draga úr stoðkerfisvandamálum. Þessi tvö vandamál eru helstu orsakir nýgengis örorku, svo dæmi sé tekið. Þarna eru gríðarlega mikil tækifæri til að gera miklu betur fyrir fólkið sem nýtir sér síðan heilbrigðiskerfið okkar.

Það kom kannski ekki á óvart en mér þótti ekki vera mikil umræða um valfrelsi sjúklinga og valfrelsi almennt í heilbrigðiskerfinu í þessari stefnu. Þar kemur auðvitað að þessu hefðbundna: Ég held að það sé ekkert síður mikilvægt fyrir heilbrigðiskerfið okkar en alla aðra þætti í efnahagslegri starfsemi að það sé valfrelsi og það sé samkeppni, bæði um starfsfólk en ekki síður um viðskiptavini, ef svo mætti orða það. Að sjúklingar hafi val um það hvert þeir leita eftir þjónustu. Það er ríkasti hvatinn fyrir fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu að þurfa að standa sig varðandi gæði og skilvirkni. Ekkert síður á þetta við um starfsfólk, að heilbrigðiskerfið sé spennandi starfsvettvangur fyrir starfsfólk og það sé sóst eftir starfskröftum þeirra víðar en bara á einum vinnustað. Þetta heyrum við mjög gjarnan frá heilbrigðisstéttum í dag, t.d. varðandi hina gríðarlega sterku stöðu Landspítalans, að hún hreinlega fæli einstaklinga frá því að mennta sig til starfa af því að það geti verið mjög erfitt fyrir sérfræðimenntað fólk að snúa heim, val um vinnustað sé svo takmarkað. Þetta þarf alltaf að hafa í huga. Sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn þurfa að hafa valkosti í heilbrigðiskerfinu. Samkeppni ýtir alltaf undir aukna skilvirkni og meiri nýsköpun, hvort sem er í heilbrigðiskerfi eða öðru, það höfum við reynt á flestum sviðum efnahagslegar starfsemi.

Það sem er mikilvægast fyrir okkur þegar horft er á þessa stefnu er matið á núverandi stöðu varðandi gæði og skilvirkni kerfisins. Þar held ég að staðan sé hvað óljósust í dag. Mér þykir mjög óþægilegt hversu litla hugmynd við höfum í raun og veru um stöðu okkar hvað þetta varðar. Það er fagnaðarefni að í stefnunni er fjallað sérstaklega um einmitt skilvirk kaup á þjónustu og það sé verið að fella bæði opinbera kerfið og einkarekna kerfið, eða rekið af öðrum aðila, undir sömu, getum við sagt, innkaupaviðmið og reglur, að Sjúkratryggingar sjái meira og minna um öll opinber innkaup á heilbrigðisþjónustu.

Þegar kemur að t.d. hjúkrunarrýmum eða þjónustu í kringum hjúkrunar- og dvalarrými fyrir aldraða, sem fyrst og fremst er sinnt af öðrum aðilum en ríkinu, setjum við fram mjög skýrar kröfur um hvað við viljum án þess endilega að fjármagna þær sömu kröfur. Þegar við horfum hins vegar á stærstu einstöku einingu heilbrigðiskerfisins, Landspítalann, leggjum við yfirleitt mjög góðfúslega fram fjármagn án þess endilega að setja fram mjög skýrar kröfur um hvað við viljum fá fyrir það. Ég sakna þess mjög gjarnan í fjárlaganefnd þegar við ræðum aukin framlög til Landspítalans, sem er án efa mikilvægasta rekstrareiningin í heilbrigðiskerfinu, hversu lítil umræða fæst í raun og veru um það hvað við fáum fyrir þessa fjármuni, hversu vel þeir eru nýttir, hvaða tækifæri eru til að nýta þá mögulega betur og hvaða kröfur fylgja auknum fjárveitingum til spítalans hverju sinni. Þarna höfum við klárlega tækifæri til að bæta okkur verulega.

Ég hlakka til að sjá hvernig þessari vinnu vindur fram og ég vona svo sannarlega að í umfjöllun velferðarnefndar verði enn frekar skerpt á þessari stefnu og ekki síst að gætt verði að því að mjög mikilvægur þáttur í heilbrigðiskerfinu okkar er hinn svokallaða einkarekni hluti heilbrigðiskerfisins sem þarf líka að huga að. Vissulega eigum við að gera þar mjög skýrar og vel fram settar kröfur, bæði hvað varðar gæði og skilvirkni, ekkert síður en hjá opinberum hluta heilbrigðiskerfisins, en þetta er ekkert síður mikilvægur hluti heilbrigðiskerfisins fyrir okkur en sá opinberi, bæði fyrir valfrelsi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna.