149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðakostnaður.

488. mál
[17:07]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og hv. þm. Vilhjálmur Árnason, sem tók þessa umræðu upp, þakka fyrir hana. Um leið og ég segist vera sammála þingmanninum um að það skipti verulega miklu máli að startkostnaðurinn, áður en maður fer af stað í að byggja húsnæði, sé sem lægstur verð ég að segja að þessi gjöld skipta verulega miklu máli. Jafnframt vil ég þó segja við þingmanninn, um leið og ég er sammála honum hvað þetta snertir, að það er líka gríðarlega mikilvægt að við þorum sem stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, að vera tilbúin til þess með ákveðnum hætti að stýra þessum markaði. Við megum ekki leyfa honum að vera alveg frjálsum vegna þess að þá sjáum við of mikið framboð, eins og núna, af stórum og dýrum íbúðum sem ég held að séu ekki eingöngu ekki að seljast vegna þess að startkostnaður hafi verið svona mikill, það er líka vegna þess að það er ekki markaður fyrir svona stórar og dýrar íbúðir í grunninn, jafnvel þó að við næðum niður lóðakostnaðinum í upphafi.

Við þá sem eru á hinum vængnum og segja að þetta snúist allt um að styrkja betur þá sem eru á leigumarkaði, fyrstu kaupendur og fleiri, vil ég segja að við náum engum árangri þar nema við náum að tryggja nægilegt framboð af lóðum líka. Þessar tvær aðgerðir verða að spila saman og það ánægjulega við tillögur átakshópsins er að ég held að þær geri það vel.

Ég á lítinn tíma eftir en varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi lífeyrissjóði, að þeir kæmu í ríkari mæli að fasteignauppbyggingu, er auðvitað eitt af því sem lagt er upp með varðandi fyrstu kaupin að menn geti nýtt lífeyrissparnað með einhverjum hætti og það er auðvitað aðgerð í þá veruna. En ég hef kynnt mér það sem hluti (Forseti hringir.) stéttarfélaganna hefur lagt fram varðandi nýtingu og uppbyggingu leiguíbúða og í skýrslu átakshópsins er því beint inn í samtal á milli aðila vinnumarkaðarins vegna þess að það er í raun og veru þeirra mál en ekki ríkisins.