149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig minnir einmitt að einungis á tveimur stöðum sé minnst á veggjöldin. Annars vegar er sagt á bls. 10:

„… að leitað verði leiða til að fjármagna tvöföldun Hvalfjarðarganga í samstarfi við einkaaðila …“

En í kaflanum Markmið um hagkvæmar samgöngur segir:

„Skoðaðar verði leiðir til fjármögnunar stærri framkvæmda, m.a. í samstarfi við einkaaðila, þ.m.t. verkefni þar sem ríkið leggi fram fé til að tryggja arðsemi. Í þessu tilliti verði innheimta veggjalda könnuð þar sem slíkt er mögulegt.“

Það er bara hluti, held ég, af réttu ferli. Ef tillaga kemur um það frá ráðherra í formi frumvarps eða því um líkt þá fær það bara þinglega meðferð. En í nefndarálitinu hér er ígildi þingmáls, að því er ég tel, þingsályktunartillaga til ráðherra, um að haga a.m.k. þeim framkvæmdum sem þar eru taldar upp með gjaldtöku og svo ýmis önnur verkefni eins og jarðgöngin. Skiljanlega vakti það ekki mikla athygli umsagnaraðila miðað við hvernig veggjaldaáætlanirnar í samgönguáætlunni sjálfri voru orðaðar, því að það var bara framtíðarvandamál, en ekkert um það að endurskoða þurfi samgönguáætlun strax á næsta hausti, það var ekkert í hendi um neitt svoleiðis.

Þannig að það var kannski búið að vinna að þessu nefndaráliti mjög lengi. En nei, við fengum ekkert að vita af því fyrr en í upphafi desember um hvað málið snerist, að í raun væri verið að vinna þingsályktunartillögu, að mínu mati, til ráðherra um nákvæma tilhögun veggjalda fyrir ákveðnar framkvæmdir. Ég tel að svona nákvæm tilmæli til ráðherra eigi ekki heima í nefndaráliti, heldur eigi þau heima í sérþingmáli. Það er í raun spurning mín hvað þetta varðar.