149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:19]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort það sé mikill meiningarmunur hjá mér og hv. þingmanni um það hversu mikilvægt er að klára samkomulag við sveitarfélögin um uppbyggingu borgarlínu og þá að sjálfsögðu líka hvernig kostnaðinum verður skipt. Í áliti meiri hlutans er einmitt boðað að frumvarp komi frá hæstv. ráðherra um þessar tillögur, þ.e. veggjöldin, það er áætlað í mars. Ég veit að hópur er að störfum, fulltrúar SSH eru að vinna með Vegagerðinni að útfærslu á þessu varðandi borgarlínuna. Ég geri kröfu um að það liggi fyrir þegar við förum í þetta, hvernig við ætlum að fara í þá mikilvægu innviðauppbyggingu sem borgarlínan er, eins og ég sagði áðan, fyrir landsbyggðina alla.

Ég held að hv. þingmanni hafi eitthvað misheyrst þegar ég var að vísa í Arnarnesveginn. Ég var annars vegar að vísa í breytingartillögu varðandi Vesturlandsveg og Skarhólabrautina, en ég nefndi líka mikilvægi þess að í nefndarálitinu leggur meiri hlutinn áherslu á að framkvæmdum við Arnarnesveg verði hraðað eins og mögulegt er þannig að framkvæmdir geti hafist (Forseti hringir.) um leið og skipulagi og hönnun verði lokið. Ég tek heils hugar undir það. Þarna er um risastórt öryggismál að ræða. (Forseti hringir.) Það átti auðvitað aldrei á sínum tíma að taka Arnarnesveginn út af samgönguáætlun, það voru mistök og hefði aldrei átt að gera og ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá það rata inn, (Forseti hringir.) en treysti því að farið verði í þann mikilvæga veg von bráðar.