149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að bregðast við ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, sem nú starfar utan flokka en var áður í Flokki fólksins. Mig langar að ræða þessa stefnu, að þeir greiði sem noti, vegna þess að ég held að við séum öll sammála um að ástand vega er mjög slæmt. Mig langar að vitna aðeins í ræðu þingmannsins, með leyfi forseta, sem hann flutti hér í umræðu um fjárlög. Þar segir:

„Stefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu er að látið er undir höfuð leggjast að gera gangskör að því að bæta sem vert væri kjör þeirra sem lakast standa í íslensku samfélagi. Greiðslur í almannatryggingakerfinu duga ekki fyrir viðunandi framfærslu, haldið er fast við að hinir tekjulægstu beri þyngstu skattbyrðarnar og öryrkjar hafa ekki enn verið leystir úr hinni manngerðu fátæktargildru sem þeim hefur verið búin, allt of lengi.“

Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þingmanns hér í lok nóvember sl. og velti því fyrir mér hvað hefur breyst. Áhrif sértækrar gjaldheimtu á hverja ferð og almennrar skattheimtu vegna orkuskipta leggjast ofan á bensíngjöldin á meðan fólk er enn að aka á gömlum bílum — og það eru kannski þeir tekju- og eignaminnstu sem geta lítið eða illa skipt yfir á nýjar drossíur sem eru þá rafmagnsknúnar. Hvernig fer það saman að öll þessi skattheimta muni ekki snerta mest þá efnaminnstu, eins og mátti skilja á orðum hv. þingmanns hér í ræðu?