149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:51]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Í þessum lið greiðum við atkvæði um borgarlínu en ræðum ekki bara það að við ætlum að ræða borgarlínu og setja í nefnd, samráðshóp og inn í alls konar gáttir og vangaveltur. Við erum að ræða hér þær útfærslur sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa öll komið sér saman um að verði að fara í og að farið verði í, þ.e. uppbyggingu borgarlínu, vegna þess að ef við ætlum að gera eins og ríkisstjórnin leggur til, að humma þetta fram af okkur næstu árin — við erum að samþykkja samgönguáætlun til fimm og 15 ára — mun umferð á höfuðborgarsvæðinu aukast um 40% á næstu tíu árum.

Ég held að allir vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu séu meðvitaðir um að það er bæði hættulegt og mun koma verulega niður á öllu daglegu lífi, bæði borgarbúa og þeirra sem hingað þurfa að leita, þannig að við leggjum til að fjármagn verði sett í verkið en ekki bara skipuð nefnd.