149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

aðgangur fatlaðs fólks að réttarkerfinu.

369. mál
[17:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram að spyrja um réttindi sem tengjast fötluðu fólki og aðgangi þess að réttarkerfinu. Ég verð að viðurkenna að ég vona að viðhorf ráðherra verði annað í þessari fyrirspurn en í þeirri síðustu.

Ég spyr: Hvað hefur verið gert til að standa við skuldbindingar okkar í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um að tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu, m.a. með viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þá sem starfa á sviði réttarvörslu, hvort sem það eru lögreglumenn eða starfsfólk fangelsa? Og einnig: Hvað hefur verið gert varðandi úttekt á stöðu fatlaðs fólks í fangelsum?

Við verðum að hafa í huga að með samningnum er m.a. verið að fara í það hvernig tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu og það hvernig aðildarríkin eigi að stuðla að slíkri fræðslu eða viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þá sem starfa innan réttarvörslukerfisins. Þetta þýðir m.a. að líta verði á allar sértækar ráðstafanir, eins og segir í samningnum, og stjórnvöld hverju sinni eiga að vega og meta og taka sérstakt tillit til fatlaðs fólks og aðstæðna þess og þarfa í lögum og reglum varðandi réttarkerfið og í framkvæmd án þess að það verði talin mismunun gagnvart öðru fólki. Þetta á við hvort sem við ræðum um sakamál eða einkamál.

Virðulegur forseti. Á undanförnum árum hafa komið upp mál sem sýna svo ekki verður um villst að íslenska réttarkerfið nær ekki að tryggja rétt fatlaðs fólks sem rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið gegn með alvarlegum hætti og að það njóti þeirrar stöðu og verndar sem það á rétt á að njóta til jafns við aðra.

Einnig hafa komið fram upplýsingar sem gefa ástæðu til að ætla að réttarkerfið taki ekki nægilega tillit til stöðu og þarfa fólks sem er til að mynda þroskahamlað eða glímir við geðrænar raskanir og/eða er grunað um afbrot og er rannsakað af hálfu lögreglu og jafnvel sett í gæsluvarðhald.

Einnig liggja fyrir upplýsingar frá fangelsisyfirvöldum sem sýna svart á hvítu að einstaklingar sem eru þroskahamlaðir eða aðrir sem eru með geðrænar raskanir af einhverju tagi og hafa verið dæmdir til fangelsisrefsingar fá allt of lítinn sérfræðistuðning í fangelsum. Í réttarkerfinu skortir líka mjög viðeigandi úrræði fyrir þá.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað bent á að brýnt sé að íslensk stjórnvöld láti án tafa fara fram greiningu á íslenska réttarkerfinu og grípi til viðeigandi og fullnægjandi aðgerða til að tryggja að réttarkerfið taki á öllum stigum nauðsynlegt tillit til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks. Það er á þeim grunni sem ég spyr hæstv. ráðherra hvað hafi verið gert í þessu máli til að tryggja aðgang fatlaðs fólks að réttarkerfinu þannig að það uppfylli allar alþjóðaskuldbindingar en ekki síður bara almenn mannréttindi hér innanlands.