149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

helgidagafriður og 40 stunda vinnuvika.

549. mál
[12:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, á ýmsu átti ég nú von frá hv. þm. Bergþóri Ólasyni en að hann hefði efasemdir um þetta frumvarp sem er til að auka frelsi manna til athafna á helgidögum. En ég skil áhyggjur hans svo að hann beri hag þjóðkirkjunnar fyrir brjósti og í því ljósi get ég fagnað athugasemdum hans. Það kemur fram í greinargerð að samráð var, lögum samkvæmt, haft við þjóðkirkjuna við þessa breytingu eins og ráðherra ber alla jafna að gera þegar hann leggur fram lagabreytingar er lúta að þjóðkirkjunni eða kirkjulegum málum. Ég get alveg upplýst um það að ég taldi að það hefði verið einfaldast, mér fannst það liggja beinast við, að færa bara þennan texta, þar sem vísað er til helgidaga þjóðkirkjunnar, inn í lög um þjóðkirkjuna en fékk ábendingu um það sem var gagnleg og auðvitað alveg hárrétt að helgidagar þjóðkirkjunnar verða auðvitað ekkert ákveðnir með lögum. Það er ekki þingsins að ákveða helgidaga þjóðkirkjunnar. Það er kirkjunnar sjálfrar að gera það. Það er hluti af innri málefnum þjóðkirkjunnar. Það er þess vegna sem ég lét ekki verða af því að vísa til helgidaga þjóðkirkjunnar og tiltaka það eins og gert hefur verið í núgildandi lögum — jól, páskar og þessir dagar. Það getur í sjálfu sér líka breyst ef þjóðkirkjan ákveður það hverjir helgidagarnir eru. Þeir eru ekki endilega þeir sömu milli landa þótt kristin séu eða lúthersk eða evangelísk jafnvel. Sú leið var því farin að vísa til tiltekinna daga, sem heita jóladagur, skírdagur og þessir dagar, í lögum um 40 stunda vinnuviku. Það kann síðan í framhaldinu að vera ástæða fyrir þá sem fara með þá löggjöf að taka til í henni og breyta henni eftir behag.