149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:05]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Þetta mál snýst svo sannarlega um íslenska hagsmuni. Það er þess vegna fullt tilefni til að ræða það. Það er enginn ágreiningur, a.m.k. meðal flestra, um að það er verðugt og þarft markmið í sjálfu sér að afnema fjármagnshöft. Enginn deilir um að auðvitað ber okkur að standa við okkar alþjóðlegu skuldbindingar, en það er ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Í sínum innsta kjarna snýst þetta mál um það á hvaða gengi heimilað verður að losa um þær aflandskrónueignir sem eftir standa. Ekki flóknara en það. Og munurinn á því gengi og því sem við getum kallað markaðsgengi dagsins, margfaldaður með fjárhæðunum sem um er að ræða, er íslenskir hagsmunir. Þetta geta verið mjög verulegar fjárhæðir og skipt mjög miklu máli.

Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar rakti það svo ágætlega að það er búið að vinna svona að mestu leyti á þessum svokallaða aflandskrónustabba, sem er orðið sem menn kusu fyrir þetta fyrirbæri. Hann nefndi tölurnar 15% niður í 3,1% og auðvitað er það ágætt. Spurningin er hins vegar: Hvaða nauðir rekur menn núna til þess að ætla að ákveða það að þessi eftirstandandi 3,1% eigi að fara út úr landinu án þess að það kosti þessar eftirlegukindur, eins og þær voru nefndar í skjali ríkisstjórnar og Seðlabanka, nokkurn skapaðan hlut? Í því skjali sem ég hef hér meðferðis er lagt upp með allt aðra áætlun. Þetta er áætlun ríkisstjórnar Íslands og Seðlabankans, þ.e. fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem er útgefandi þessa skjals um losun fjármagnshafta, og er kynnt á forsíðu sem „Áætlun ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands um losun fjármagnshafta með stöðugleikaskilyrðum og álagningu stöðugleikaskatts á slitabú og fjölvalsútboð fyrir aflandskrónur til að tryggja jafnvægi og hagfelld vaxtarskilyrði þjóðarbúsins.“ Þetta er langt og mikið og ágætt plagg og náttúrlega gjörhugsað, það ber það með sér.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er búinn að rekja innsta kjarnann í þessu, en þarna er því skilyrðislaust haldið fram þegar fjallað er um gjaldeyrisuppboð, skilyrðislaust og án þess að biðjast neinnar afsökunar á því, að kröfuhafar greiði viðbótargjald, eins og það heitir, fyrir útgöngu úr gjaldeyrishöftunum. Og ef það var talið tilefni 2015 til að kröfuhafar greiddu viðbótargjald fyrir útgöngu úr gjaldeyrishöftum, hvað hefur breyst síðan varðandi þá sem eru eigendur þessara 3,1% af landsframleiðslu? Ég get ekki séð að það sé útskýrt í þessu ágæta frumvarpi sem liggur hérna fyrir.

Síðan gætir þarna, eins og hv. þingmaður rakti svo rækilega, mikillar einbeitingar af hálfu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og ekki hikað við að nota orð á borð við afarkosti. Með leyfi forseta, er ég að vitna í þetta plagg: „Afarkostir: Læstir reikningar til langs tíma án vaxta fyrir þá sem ekki hlíta skilyrðum stjórnvalda.“ Taka menn eftir orðalaginu? Síðan kemur þessi setning: „Kjör versna yfir tíma og gera það að óverjandi kosti fyrir fjármagnseigendur að velja vaxtalausa reikninga til frambúðar.“ Menn sjá alveg hvernig þetta er lagt upp. Þess vegna stöndum við núna frammi fyrir því að þurfa að fá svör, þing og þjóð, leyfi mér að segja. Af hverju er þetta gert núna? Og af hverju er það gert með þeim hætti að það er vikið frá hinni upphaflegu hugsun í þessari áætlun um losun fjármagnshafta? Mér heyrist að flestir menn sem um þau mál hafa fjallað lýsi henni sem mjög vel hugsaðri og heppnaðri aðgerð. Ég held að allir sanngjarnir menn játi því.

Frú forseti. Fjármagnshöftin eiga sér rót í hinu efnahagslega áfalli sem við urðum fyrir haustið 2008. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var kallaður hingað til starfa af ríkisstjórninni, sem var fyrsta vestræna ríkisstjórnin sem leitaði á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því að Bretar gerðu það í tíð Verkamannaflokksstjórnarinnar á 8. áratug liðinnar aldar, fjármálaráðherrann James Callaghan, síðar eitt og annað sem ég skal ekki hirða um að rekja hérna, en síðasta landið til að kalla á Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var Stóra-Bretland. Þessi áætlun, ef menn muna, stóð saman af þremur meginþáttum sem snúa að ríkisfjármálunum. Það þurfti náttúrlega að brúa þennan ógnarleg halla. Einn þátturinn var að taka upp höft á gjaldeyrisviðskipti og það er auðvitað það sem við erum að fást við hér. Það sem er merkilegt í því og sérkennilegt er að þarna vék Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í mjög veigamiklum atriðum frá áður markaðri stefnu í störfum sínum í þágu landa, aðildarlanda. Það er kannski rétt að geta þess, talandi um aðildarríki, að Ísland er meðal stofnríkja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en það voru 29 ríki sem stofnuðu Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann í desember 1945. Við áttum fulltrúa á ráðstefnunni í Bretton Woods í Bandaríkjunum þar sem hin nýja skipan efnahags- og viðskiptamála í hinum vestræna heimi var ákveðin og er af þessu mikil og merkileg saga.

Síðan gerist það, eins og menn þekkja, að við þurfum að glíma við þetta hrun. Hrunið hafði, eins og menn vita, mjög alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og atvinnufyrirtæki landsmanna. Ég geri ekki lítið úr þeim erfiðu viðfangsefnum sem ríkisstjórnin sem sat hér frá 2009–2013 átti við að glíma. Ég get heldur ekki neitað því að það var stundum sem manni þótti sem það væri kannski ekki nægilega fast staðið í ístaðinu gagnvart erlendum aðilum. Það virtist á stundum eins og það nægði að það kæmi hér maður með stresstöskur eins og það heitir í teinóttum jakkafötum, ég segi nú ekki kórónafötum af því að skáldbróðir Einars Más Guðmundssonar situr hér í hliðarsal, en það var eins og menn kiknuðu í hnjánum og menn voru svolítið hoknir á þessum tíma, verð ég að leyfa mér að segja.

Hluti af áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þessari efnahagslegu áætlun sem þarna var lagt upp með, var að það fylgdi lánsfé sem vantaði og það lánsfé eins og menn muna var annars vegar fé frá sjóðnum sjálfum en hins vegar viðbótarfé sem Norðurlöndin lögðu til, þar með taldir okkar kæru vinir og bræður í Færeyjum, og svo vinir okkar Pólverjarnir. Menn muna kannski eftir því að það gekk á ýmsu varðandi þessa áætlun á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Icesave-ríkin tvö, Bretland og Holland, virtust setja sig í þær stellingar að reyna að standa í vegi fyrir eðlilegum framgangi þessa máls á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég hef allt til þessa dags spurt mig hvers konar ráðgjafar ríkisstjórn Íslands naut eiginlega í þessu máli. Það voru linnulaus viðtöl við ráðherra um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri svona og hinsegin vegna þess að þessi tvö ríki settu sig upp á móti eðlilegum framgangi þeirrar efnahagslegu áætlunar sem við höfðum ráðist í, íslensk stjórnvöld, með atbeina Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á grundvelli samkomulags við sjóðinn um efnahagslega áætlun. Og það var látið að því liggja og fullyrt reyndar fullum fetum að þessi aðildarríki settu fótinn fyrir okkur, en það er eins og það hafi enginn verið í kringum þessa ríkisstjórn til að benda henni á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er lögbundin stofnun og starfar á grundvelli stofnsáttmála sem hefur eins konar stjórnarskrárígildi fyrir þessa mikilvægu, virðulegu og merku alþjóðlegu stofnun. Stofnsáttmáli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er til í mjög vandaðri íslenskri þýðingu og hefur verið gefinn út í tvígang af Seðlabanka Íslands. Þar geta menn farið rækilega yfir það hversu vandað og gjörhugsað plagg það er og lýsir því hvað menn höfðu lagst djúpt yfir þessar alþjóðlegu stofnanir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn voru og það voru ekki minni menn en Kaynes lávarður, sem var aðalsamningamaður Breta, og Bandaríkjamaður að nafni Harry Dexter White. Reyndar urðu sjónarmið Bandaríkjamannsins ofan á ef borið er saman það sem þeir lögðu af mörkum.

En ástæðan fyrir því að ég er að rifja þetta upp, frú forseti, er að við erum núna að fjalla um það hvernig eigi að binda enda á það tímabil sem þarna hófst upp. Það er sjálfsagt mál að stefna að því að fjármagnshöftin heyri sögunni til, en það er bara ekki sama hvernig það er gert. Og í því ferli er það skylda, ekki síst alþingismanna og annarra sem að málinu koma, stjórnvalda, að gætt sé til hins ýtrasta íslenskra hagsmuna. Og íslenskir hagsmunir eru ærnir og miklir í þessu máli.

Til að ljúka þessu varðandi þann yfirgang sem leitast var við að beita okkur af hálfu þessara Icesave-ríkja tveggja og ástæðuna fyrir því að ég nefndi stofnsáttmálann er að hann gerir ráð fyrir eðlilegri málsmeðferð og jafnræði á milli aðildarríkja og samkvæmt stofnsáttmálanum er ekki hægt að fótumtroða aðildarríki, jafnvel þótt það sé lítið eins og Ísland. Síðan er annað og það er dýnamíkin, ef ég má sletta, eða pólitíkin innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar eru ríki sem láta náttúrlega ekki bjóða sér að komið sé fram með þeim hætti sem þessar Icesave-þjóðir tvær virtust hafa tilburði til að gera. Þá nefni ég t.d. ríki eins og Kína, Indland, sem eiga fulltrúa bæði tvö í 24 manna stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Frú forseti. Þegar ég ræði hér um íslenska hagsmuni þá er náttúrlega býsna sláandi hvernig þróunin hefur verið gagnvart þeim kjörum sem þessum erlendu aðilum bjóðast við að losa um þessar aflandskrónueignir. Eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rakti í sinni ræðu, sem er að verða að eins konar framhaldssögu hérna því honum auðnaðist ekki að ljúka sögunni, að þróunin er með alláberandi hætti, svo ekki sé meira sagt, í þá átt að bæta hag þeirra kröfuhafa eða öllu heldur eigenda þessara aflandskrónueigna frá því sem lagt var upp með og þá á kostnað íslenskra hagsmuna. Og, frú forseti, það er akkúrat þetta sem við erum að ræða hérna, íslenskir hagsmunir.

Ég ætla að leyfa mér, frú forseti, að vísa í þetta frumvarp sem við erum að fjalla um hérna. Þegar maður reynir að átta sig á því að hverju er stefnt þá má sjá í greinargerð þess að frumvarpið er eitt af lokaskrefum stjórnvalda til að afnema fjármagnshöft sem sett voru í kjölfar falls íslenska fjármálakerfisins 2008. Gott og vel og ágætt. Svo er fjallað um eftirstandandi takmarkanir, það er annars vegar meðferð þessara krónueigna sem við erum fyrst og fremst að tala um hér og síðan er annað mál tekið þarna upp, mjög stórt og mikilvægt mál, sem eru hin svokölluðu innflæðishöft og þurfa sérstaka umræðu og skoðun. En ég tek líka eftir því að það segir í greinargerðinni, þar sem vísað er í 1. gr. laganna, að markmið laganna sé að stuðla að losun fjármagnshafta „og skapa grundvöll fyrir frjáls milliríkjaviðskipti með íslenskar krónur með efnahagslegan stöðugleika og almannahag að leiðarljósi.“

Hér er ekkert smáræðismarkmið sett í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar. Það er náttúrlega ekki eins og íslenska krónan sé einhver stór gjaldmiðill sem sé auðskiptanlegur á hinum alþjóðlega gjaldeyrismarkaði, en þarna er það allt í einu komið inn í þetta frumvarp. Og maður spyr sig: Af hverju er verið að tala um þetta þegar sjálft kjarnainntak málsins snýst um það á hvaða kjörum þessir aðilar fái að losa um sínar aflandskrónueignir? Ég er ekkert að gagnrýna þetta, en mér finnst þetta svolítið til hliðar við aðalmálið. Gott og vel.

Ég ætla að ítreka það, frú forseti, sem ég hef hér sagt, að málið snýst um íslenska hagsmuni. Málið snýst um að gæta þeirra í hvívetna með vönduðum og ábyrgum hætti og það standa eftir stórar spurningar: Af hverju skyldi þessum aðilum hleypt út með þessar eignir á allt öðrum kjörum en lagt var upp með í þessari vönduðu áætlun ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands? Og af hverju akkúrat núna? Hvaða hagsmunir eru í húfi fyrir íslenska þjóð sem kalla á það? Þessum stóru spurningum er ósvarað. Þess vegna vil ég leyfa mér að segja að þessi umræða í dag er ekki bara brýn, hún er algjörlega nauðsynleg.

En ég get eiginlega ekki vikið úr ræðustól öðruvísi en að lýsa undrun minni og vonbrigðum með að það skuli koma hér upp þingmaður, fulltrúi í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem mér skilst að hann hafi átt sæti í um nokkurt skeið, sem sýnist algerlega um megn að ræða efnisatriði málsins og kýs að sparka frá sér í allar áttir og ekki síst að hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni með auvirðulegum hætti, leyfa ég mér að segja, frú forseti, og lúalegum.