149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu. Hann kom inn á það sem skiptir gríðarmiklu máli í þessu samhengi öllu, þ.e. vörnina fyrir hagsmunum lands og þjóðar, ríkissjóðs og alls þess sem okkur á Alþingi er treyst fyrir. Það slær mig þannig að þegar menn hafa sýnt þá stöðugu eftirgjöf sem skinið hefur í gegn alveg síðan um mitt ár 2016, og nú er sú eftirgjöf að því er virðist fullkomnuð, ætla þeir að tryggja þeim fullnaðarsigur sem erfiðastir voru okkur Íslendingum á þeim tíma sem staðan var hvað snúnust.

Mér leikur hugur á að vita hver afstaða hv. þingmanns er gagnvart því hvaða áhrif hann telur að þetta hafi á aðra hagsmunagæslu sem ríkisstjórn tekur að sér fyrir okkar hönd. Fyrr í dag var rætt um innflutning á ófrosnu kjöti. Það eru óteljandi málin sem ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, stendur í og á að vera í þeirri vinnu að verja hagsmuni Ísland. Heldur hv. þingmaður að svona fullkomin eftirgjöf, uppgjöf, gagnvart þeim aðilum sem harðast gengu fram gegn okkur, hafi áhrif á aðra hagsmunagæslu og trúverðugleika framkvæmdarvaldsins hvað hana varðar?