149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Nú ber á það að líta að margir af þeim sem nú sitja við stjórnvölinn á Íslandi héldu því fram, þegar áætlun um afléttingu hafta var lögð fram, að tölurnar sem þá voru nefndar um það sem Íslendingum gæti fallið í skaut væru óábyrgar, myndu aldrei nást o.s.frv. Kannski er það einfaldlega það sem vakir fyrir mönnum, að hjálpa til við að þær tölur náist ekki, að sá árangur náist ekki með því sem hér er verið að gera. Það er alveg víst að ef menn hefðu staðið í lappirnar og haldið sig við planið, áætlunina sem lögð var fram árið 2015, værum við þegar búin að uppskera meira en komið hefur á daginn, því miður.

Ég segi enn og aftur: Þessi undanlátssemi birtist alls staðar. Hún birtist líka í því að vilja ekki yfirtaka Arion banka. Ég leiddi líkur að því áðan að þar hefðu dottið fyrir borð í kringum 70 milljarðar, þ.e. að aflokinni sölu Valitors. Það kemur þá bara í ljós hvort ég hef rangt fyrir mér í því. En ég ítreka að þeir sem nú sitja við stjórnvölinn á Íslandi voru margir hverjir á því að þær tölur sem nefndar voru í sambandi við skuldauppgjör föllnu bankanna væru úr takti við allan raunveruleika — en annað hefur komið á daginn. Þetta hefur í sjálfu sér allt staðið eins og stafur á bók, þar til menn misstu fótanna.

Það getur vel verið að þeir sem sitja við stjórnvölinn á Íslandi nú séu svo nægjusamir að þeir ætli að láta sér nægja þriðja besta kostinn þegar þeir gátu fengið þann besta með því einu að sýna kjark. Þeir þurftu ekki einu sinni að mynda áætlunina eða búa hana til. Það var búið að búa hana til fyrir þá. Það eina sem menn þurftu að gera var að standa við hana og halda áfram að vinna eftir henni. En því miður: Illu heilli hefur menn brostið kjark.