149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[18:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Mér finnst svolítið sérstakt að vera að ræða þetta stóra mál þar sem eingöngu Miðflokksmenn virðast hafa áhyggjur af málinu og því að verið sé að fórna ákveðnum hagsmunum eða fjármunum eða hvoru tveggja. Það virðist enginn annar hafa áhuga á því.

Ég velti fyrir mér þeim fjölmörgu þingmönnum vinstri flokkanna sem hér hafa komið í pontu og viljað skattleggja allt í drep til að ná í meira fjármagn eða leggja á hærri auðlindagjöld. Þeim finnst ekkert mál að gefa eftir tugi milljarða núna til vogunarsjóða. Þeim finnst það bara allt í lagi. En þeir hafa hins vegar óteljandi hugmyndir um hvernig megi skattpína atvinnulífið og jafnvel einstaklinga í landinu. Það er svolítið sérstakt að horfa upp á að allir flokkarnir nánast virðast gengnir í sama klúbbinn, það hefur orðið einhvers konar sósíalískt hjónaband hér frammi í matsal þar sem allir aðrir flokkar en Miðflokkurinn taka þátt í að láta þetta vonda mál ná í gegn eins og ekkert sé.

Nú er búið að fara ágætlega yfir um hvað þetta mál snýst. Það er verið að liðka til, rýmka heimildir vogunarsjóðanna, þeirra sem eiga svokallaðar aflandskrónur, til að taka þær út. Það er verið að klára þá áætlun, eða hvað? Gera tilraun til þess að taka eitt skref í því að klára þá áætlun sem lagt var upp með árið 2015 í framhaldi af aflandskrónuvandanum.

Í upphaflegum tillögum var alveg skýrt kveðið á um hvernig skyldi staðið að þessu og kemur m.a. fram í glæru nr. 73 í því plaggi sem kallað er Losun fjármagnshafta og fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnti á sínum tíma eða þeir sem unnu fyrir það. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Uppboðsaðferðin er hönnuð til að koma í veg fyrir eftirlegukindur á meðal aflandskrónueigenda.“

Þessar eftirlegukindur hafa vissulega orðið til vegna þess að þessir aðilar hafa haft trú á því að bíða og eru greinilega við það að fá um það fullvissu eða óskir sínar uppfylltar með því sem hér virðist vera í pípunum eða er að gerast.

Hugmyndin á sínum tíma með álagið sem menn þyrftu að greiða til þess að fara út var að sjálfsögðu til að gæta þess að ríkissjóður Íslands og Íslendingar fengju sanngjarnt verð eftir hrunið fyrir, þar sem þessir aðilar voru að taka stöðu gegn krónunni og landinu, kaupa kröfur á hrakvirði, 2–5% af raunverulegu virði þeirra o.s.frv. Allt þetta þekkjum við. Það sem hins vegar er kannski ekki nýtt en nokkuð óþægilegt er að maður hefur á tilfinningunni að nú sé verið að reyna að klára þetta bara til að klára þetta. Menn hafi ekki þrautseigjuna og þolinmæðina sem þarf og þurfti til að koma á þeirri aðgerð sem ég vitnaði til áðan, þ.e. áætlun um losun fjármagnshafta. Það er ekkert launungarmál að hún var sett upp, orðum það þannig, sem gulrót eða prik til þess að menn fengju eitthvað fyrir það ef þeir gerðu það sem ríkið krafðist, annars myndu þeir læsast inni um óákveðinn tíma.

Sumir völdu að gera ekki neitt og læstust inni eða lokuðust inni með sínar eignir, ákváðu að bíða og bíða. Og nú er komið að því að verðlauna þessa aðila með því að hleypa þeim út á sérstaklega góðum kjörum í óljósri von um að þeir fjárfesti aftur í íslenskum skuldabréfum. Það getur vel verið að einhverjir þeirra geri það, það held ég að enginn viti hreinlega. Það er svolítið sérstakt að setja það fram sem rök í málinu um leið og menn vita í sjálfu sér ekkert hvað vakir fyrir þessum aðilum.

Hér hefur líka verið bent á, eins og hv. þm. Bergþór Ólason gerði, að óvíst er að þessir aðilar fari yfirleitt eitthvert með sitt fé þangað sem efnahagsástand og vaxtastig er kannski ekki jafn hagstætt akkúrat og er á Íslandi í dag. En allt er þetta vitanlega, eins og annað í þessu máli, háð ákveðinni óvissu.

Ég held að það sé betra að við höldum áfram óvissunni, sýnum þrautseigjuna. Að þessir aðilar sem eftir eru greiði bara það verð sem lagt var upp með í upphafi eða síðast þegar samið var um því það er búið að vera að gefa þetta eftir í þó nokkuð langan tíma.

Hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson benti réttilega á að U-beygja hefði verið tekin í þessu máli. Það er rangt að tala eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar talaði hér, að þessir aðilar hafi ekki fengið neitt. Það hefur komið fram og kom fram hjá hv. þingmanni áðan að í tíð vinstri stjórnarinnar fengu þessir aðilar um 70 milljarða kr. í vexti sem þeir tóku úr landinu.

Hvað er það sem vakir fyrir mönnum í dag? Það er stóra spurningin sem ekki hefur fengist svar við. Hér er ekki nokkur maður, hvorki úr stjórnarliði né öðrum stjórnarandstöðuflokkum, til að ræða málið. Það hafa heldur ekki fengist nein haldbær rök fyrir því hvers vegna þurfi að klára þetta í dag. Mögulega er þetta eins og við höfum oft séð í íslenskri pólitík, heimatilbúinn þrýstingur. Menn töldu í Icesave-málinu og ýmsum öðrum málum að það yrði bara að klára það, það væri ekkert hægt annað, annað ekki mönnum bjóðandi, bjuggu sjálfir til einhvern þrýsting á sjálfa sig sem var að sjálfsögðu alger óþarfi og kom á daginn að voru gríðarleg mistök, illa haldið á málum, að sjálfsögðu.

Það má líka velta fyrir sér hvort þessi 3,1% eftirlegukindanna, ef það má orða það þannig, skipti máli, hvort þetta sé eitthvað sem við eigum að afgreiða, bara að klára þetta. Ég held að við eigum einmitt ekki að klára þetta. Það hefur ákveðin áhrif og getur haft áhrif á trúverðugleika sem Ísland hefur og íslensk stjórnvöld hafa. Ég man vel eftir því í þann tíma sem ég sinnti embætti utanríkisráðherra 2013–2016 að það var nánast sama hvar maður kom eftir að þessi áætlun var kynnt og henni hrint í framkvæmd, menn veltu því upp og spurðu: Hvernig fóruð þið að þessu? Í fyrsta lagi sögðu menn: Þvílíkur snilldarleikur þetta var 2008 að setja neyðarlögin, það er alveg ljóst. En síðan var þessi lausn sem fylgd í kjölfarið. Þetta eru þeir tveir punktar sem mestu skipta í þessu öllu saman. Þeir spurðu þar af leiðandi: Hvernig höfðuð þið þor til að gera þetta og kjark? Við bentum að sjálfsögðu á og sögðum að lögin og rétturinn væri okkar megin. Það er ekki okkar að fóðra þessa vogunarsjóði eða láta allt eftir þeim þótt þeir séu hungraðir í fé og meira fé og enn þá meira fé.

Hér hefur verið rætt um hvers vegna menn horfi svo á að þessir peningar, þessir fjármunir, skipti kannski ekki máli í stóra samhenginu og í hvað væri hægt að nota þá. Það er endalaust hægt að tala um það, að sjálfsögðu. En það eru ekki bara nokkrir þingmenn eða stjórnmálamenn sem hafa haft áhyggjur af þessu. Það var rituð hér grein, ætli það sé ekki leiðari í Fréttablaðinu, þann 3. mars 2017. Sá ágæti blaðamaður Hörður Ægisson ritar þann leiðara. Ég vitnaði í grein eftir hann hér fyrr í kvöld. Með leyfi forseta, ætla ég að fara aðeins í gegnum þennan leiðara því að hann er vel lýsandi í raun fyrir það sem við var að eiga. Hörður segir:

„Ein helsta forsenda þess að hægt var að hefja almenna haftalosun á Íslendinga í byrjun árs voru aðgerðir sem gripið var til gagnvart eigendum aflandskróna. Þeir stóðu frammi fyrir skýrum valkostum. Að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans, þar sem þeim bauðst að selja eignir sínar fyrir gjaldeyri á genginu 190 krónur fyrir hverja evru, ella þurfa að sæta því að sitja fastir með fé sitt á læstum vaxtalausum reikningum um ófyrirséðan tíma.“

Ófyrirséðan tíma. Þetta er mikilvægt. Og áfram ritar Hörður:

„Þeir bandarísku fjárfestingarsjóðir sem áttu meginþorra þessara krónueigna kusu síðari kostinn og fóru því aftast í röðina. Þessar aðgerðir voru nauðsynlegar til að girða fyrir þann möguleika að aflandskrónueignir gætu valdið óstöðugleika samtímis því að opnað yrði fyrir fjármagnsviðskipti Íslendinga.

Þessir sömu sjóðir“ — og ég minni á að þetta er í mars 2017 — „sem eiga samanlagt um 150 milljarða í aflandskrónum, freista þess nú að fá stjórnvöld til að breyta leikreglunum.“

Þarna skrifar þessi ágæti blaðamaður leiðara í Fréttablaðið og ef ég man rétt er hann nú ritstjóri Markaðarins eða var það alla vega um tíma. Þarna bendir hann einmitt á það sem málið snerist um. Allan þennan tíma voru þessir sjóðir, fulltrúa þeirra, að reyna að fá stjórnvöld til að breyta leikreglunum til þess að þeir sem fóru aftast og sátu eftir þyrfti ekki að sæta sömu reglum eða falla undir það sama og aðrir.

Áfram skrifar Hörður, með leyfi forseta:

„Greint var frá því í Markaðnum í vikunni að íslenskir embættismenn hefðu fundað með fulltrúum sjóðanna í New York til að kanna grundvöll að samkomulagi sem myndi gera þeim kleift að flytja eignir úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri. Ljóst þykir að slíkt samkomulag myndi þýða umtalsvert hagstæðara útboðsgengi fyrir sjóðina en þeim stóð til boða í fyrra.

Það hefur legið fyrir frá upphafi að forsvarsmönnum bandarísku sjóðanna hugnaðist ekki þessi staða — og hafa þeir beitt ýmsum úrræðum til að reyna að grafa undan aðgerðum íslenskra stjórnvalda.“

Hv. þm. Birgir Þórðarson nefndi hér m.a. að auglýst hafi verið fyrir kosningar, væntanlega af þessum aðilum, til að grafa undan og hafa áhrif á niðurstöður kosninga.

Áfram heldur Hörður, með leyfi forseta:

„Óþarfi er hins vegar að efast um lögmæti þeirra“ — þ.e. aðgerða stjórnvalda — „enda er aðferðafræðin gerð í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í fullu samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar. Stóru lánshæfismatsfyrirtækin hafa lagt blessun sína yfir aðgerðirnar og hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá gerði Eftirlitsstofnun EFTA undir lok síðasta árs ekkert með kvartanir bandarísku sjóðanna.

Það skýtur þess vegna skökku við ef stjórnvöld hafa í hyggju að hverfa frá fyrri stefnu á þessum tímapunkti og hleypa sjóðunum úr landi á mun hagstæðara gengi en öðrum aflandskrónueigendum bauðst í fyrra …“

Það sem gerist, að sjálfsögðu, er að þegar maður réttir þessum aðilum, þessum vogunarsjóðum og hrægömmum, litla fingur þá bíða þeir og vita að þeir munu fá alla höndina, vita að ef þeir pína eða eru nógu þrautseigir munu stjórnvöld semja við þá. Það held ég að sé það sem við erum að upplifa akkúrat núna. Þrautseigja þeirra er meiri, hún er að skila þeim ákveðnum hagstæðari niðurstöðum, hún er greinilega sterkari en þrautseigja íslenskra stjórnvalda. Sem eru að sjálfsögðu gríðarleg vonbrigði því það er algerlega og var ástæðulaust að sendimenn fjármálaráðuneytis og/eða Seðlabanka færu að reyna að semja við þessa aðila. Það lá ljóst fyrir hvað þyrfti að gera til að þeir fengju að fara út með sitt fé eða sínar eignir en þess í stað var byrjað að því rétta þeim litla puttann og svo eitt af öðru. Að sjálfsögðu.

Áfram skrifar Hörður, með leyfi forseta:

„Bjarni Benediktsson forsætisráðherra“ — hann var það á þeim tíma — „neitaði því aðspurður á Alþingi í gær að um stefnubreytingu að ræða í þessum efnum. „Það kemur ekki til greina að skapa einhverja lausn fyrir aflandskrónueigendur sem ekki felur það um leið í sér að hægt verði að fara í fullt afnám hafta.““

Um þetta efast enginn hjá þáverandi forsætisráðherra. Þetta snýst heldur ekki um að menn ætli að koma í veg fyrir að fara í fullt afnám hafta. Þessir vogunarsjóðir þurftu bara að uppfylla þau skilyrði sem sett voru.

Síðan heldur Hörður áfram, með leyfi forseta:

„Ekki er ástæða til að efast um þau orð forsætisráðherra. Þótt efnahagsstaða Íslands hafi líklega aldrei verið betri þá þýðir það ekki að eigendur aflandskróna eigi sjálfkrafa að njóta þeirrar bættu stöðu. Þeir hafa nú þegar fengið sérmeðferð enda áttu aflandskrónueigendur þess einir kost um árabil að losna út fyrir höft í tengslum við fjárfestingarleið Seðlabankans.“

Þeir áttu þess einir kost meðan aðrir, Íslendingar, almenningur, gat það ekki.

„Allar aðstæður eru núna fyrir hendi til að stíga skrefið til fulls og opna sem fyrst alfarið á erlendar fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða, fyrirtækja og heimila. Stefna stjórnvalda við að framfylgja áætlun um afnám hafta hlýtur að vera áfram sú að forgangsraða í þágu íslensks almennings — en ekki bandarískra vogunarsjóða.“

Ég held að þessi ágæti leiðari Harðar Ægissonar frá því 3. mars 2017 eigi bara ágætlega við í dag og sé hollt að rifja hann upp og í það minnsta kalla eftir upplýsingum og skýringum á því hvað það er sem réttlæti þetta og kalli á að þetta sé gert núna. Það kemur ekki skýrt fram í frumvarpinu og ekki í nefndarálitinu heldur. Það er sáð einhverjum fræjum óróleika eða ótta. Það er talað um að menn telji að menn muni endurfjárfesta í íslenskum skuldabréfum o.s.frv. Það er ekki hægt annað álykta, herra forseti, en að menn séu þarna á rangri leið, séu í rauninni að gefast upp, séu að klára einhver mál vegna þess að það er svo orðið svo leiðinlegt að berjast fyrir þeim o.s.frv. Ég held að það sé ekki hægt að draga neina aðra ályktun nema það komi fram betri skýring. Sem ekki hefur komið enda hafa þingmenn forðast að taka þátt í þessari umræðu einhverra hluta vegna. Menn munu örugglega hópast inn í þingsal rétt á eftir til að greiða atkvæði um lengd þingfundar, ef ég þekki þingmenn rétt sem eru hér á skrifstofum sínum eða heima, þeir munu keyra niður í bæ og taka þátt í því. Allt í góðu með það. Það er sjálfsagt að lengja þingfund til að tala um þetta mikilvæga mál og vonandi munu menn þá bara taka þátt í umræðunni því að það er vont ef ekki heyrast rök eða sjónarmið þeirra sem ætla sér að samþykkja þetta. Þau hafa ekki heyrst hér. Þau hafa ekki komið fram, ekki frekar en þau komu fram í 1. umr. um málið eða, að manni skilst, á þessum þremur nefndarfundum þar sem fjallað var um málið. Þá er með ólíkindum að það eigi að keyra það í gegn með þessum hætti.

Það er af ýmsu öðru að taka ef menn skoða þær fréttir sem fluttar hafa verið af þessum málum, rifja þær upp, eða fara í gegnum hinn stóra glærubunka um losun fjármagnshafta. Það er ágætt að rifja upp hvert markmiðið var. Svo höfum við tekið saman fréttir og tilkynningar frá Seðlabankanum og fréttir þar sem umfjöllun er um þessi mál og þær skýringar sem gefnar hafa verið á breytingum á verðum. En allt ber að sama brunni. Menn fóru af stað í einhvern leiðangur, þóttust ætla að semja við þessa aðila eða bjóða þeim möguleikann á að semja en lenda svo í því að aflandskrónueigendur, vogunarsjóðirnir, eru komnir með tögl og hagldir á stöðunni, búnir að „bíða af sér“ hið versta, hið versta vitanlega fyrir þá en hið besta fyrir ríkissjóð og Ísland, en eiga nú að fá möguleika á því að fá þarna 83–84 milljarða á einhverjum kostakjörum sem öðrum buðust ekki.

Einhvern tímann hefði einhver spurt hvort þetta væri sanngjarnt eða hvort gætt væri jafnræðis. Ég efast ekkert um að þetta standist en þetta er klárlega ekki það sem menn lögðu af stað með, ekki sú stefna sem var samþykkt og ekki það plan sem menn horfðu á, til Íslands, með öfundaraugum, að við skyldum geta farið þessa leið, að við skyldum geta gert þetta með þessum hætti meðan mörg önnur Evrópuríki, ég nefni bara Grikkland, voru nánast pínd ofan í duftið til að gera það sem alþjóðlegt vald og fjármagnseigendur sögðu þeim.