149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

.meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sannarlega ekki að ófyrirsynju að þetta mál er rætt í tengslum við gjaldeyrismarkað og fjármálaáætlun. Við þekkjum það — ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu — hafandi setið saman í fjárlaganefnd, þó að nokkurt hlé hafi orðið á, að fjármálaáætlun, undirstöðugagn í ríkisbúskapnum, er reist á ýmsum forsendum og þar á meðal um gengi krónunnar. Hvað segir í greinargerð með frumvarpinu um áhrif á gengi krónunnar? Lítum á það.

Með leyfi, herra forseti, segir á bls. 8 í greinargerð, í undirkafla 6.3, Áhrif á Seðlabankann og gjaldeyrismarkað:

„Áhrif breytinga á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016, á gjaldeyrismarkað munu ráðast af því“ — nú fáum við að vita sannleikann — „hve stór hluti núverandi aflandskrónueigenda ákveður að skipta umræddum eignum í erlendan gjaldeyri og á hve löngu tímabili viðskiptin eiga sér stað. Seðlabankinn býr yfir nægum gjaldeyrisforða og er vel í stakk búinn til að bregðast við skammtímasveiflum á gjaldeyrismarkaði.“

Herra forseti. Þetta svar segir nákvæmlega ekki neitt. Það eru engar upplýsingar í þessu svari. Ekkert tölulegt mat er lagt á það hvaða breytingar gætu orðið á gengi gjaldmiðilsins.