149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Á þeim gögnum sem ég hef komist yfir er ekkert sem breytist þarna í millitíðinni. Sá skuldabréfaflokkur sem vísað er til í umsögninni er löngu útgefinn og hefur legið fyrir lengi að eindagi hans væri í dag. Þannig að það komu engar nýjar upplýsingar í millitíðinni. Ég get ekki komið með neitt brúklegt svar við því hvað gerðist frá framlagningu frumvarpsins þangað til Seðlabankinn benti mönnum á að allt yrði í hers höndum ef ekki yrði gengið frá málinu í síðasta lagi í gær, eins og við fórum yfir í upphafi umræðunnar, jafn undarlegt og það nú er.

Það sem mann grunar — það er bara mannlegt eðli, stundum plotta menn yfir sig — er að menn hafa séð að þetta væri nú aldeilis sniðugt, þarna komu menn málinu í gegnum 1. umr. á sjö mínútum. Ein ræða, ekkert á móti af því að það var allt vitlaust í þinginu þann daginn. — Nú er ég að geta mér til um að samtalið hafi verið efnislega svona: Eigum við ekki að koma þessu bara í þann gír að sannfæra nógu marga þingflokka um að nú sé lag að keyra þetta í gegn og klára? Þá er þetta vandamál frá og við þurfum aldrei að hugsa um það aftur. Það skiptir ekki öllu þó að það sé smá skaði af því, en það verða engir fúlir nema Miðflokksmenn. — Og við erum það. Ég er bara hundfúll yfir þessari hanteringu. Við höfum enga stöðu til að fara að gefa frá okkur réttindi ríkisins í þessum mæli.

Hér var stillt upp plani. Planið var gott og staðfestan og endanleikinn í planinu gerðu það að verkum að menn tóku þátt, og þeir sem ekki tóku þátt fengu á sig kylfuna. Nú er verið að draga það allt til baka með fullkominni uppgjöf.