149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[23:32]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessar spurningar. Hans spurning var efnislega á þá leið af hverju viss stjórnmálaöfl taki hagsmuni vogunarsjóðanna fram yfir hagsmuni íslensks samfélags eða íslensks almennings, hvort ég hefði einhverja hugmynd um það. Auðvitað hef ég ekki svör við því. Ég held að skortur sé á þeim eiginleika í samfélaginu að standa fast á sínu og kannski er einnig skortur á þeim eiginleika í stjórnmálastéttinni. Það má vera. Menn eru almennt fylgispakir, auðsveipir. Þegar menn taka afstöðu með þeim sem hafa á bak við sig vald peninganna þá eru það eiginleikar sem ég var að lýsa, auðsveipni og fylgispekt, ég ætla kannski ekki að greina þetta mikið nánar.

En auðvitað erum við mættir hér á Alþingi, kjörnir fulltrúar, til að vinna þjóðinni gagn. Þegar svona stórir hagsmunir eru í húfi eins og í þessu máli, 84 milljarðar, þá verða menn að staldra við. Þess vegna er ég hissa á því að alþingismenn taki ekki þátt í þessari umræðu, þó ekki væri nema vegna þess hversu stóra hagsmuni er um að ræða, og spyrji spurninga, en það virðist ekki einu sinni vera áhugi á því að spyrja spurninga.