149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi aðgerð öll er auðvitað þvingunaraðgerð. Aðgerðin sem lagt var upp með árið 2015 er þeirrar gerðar og það var aldrei neinn feluleikur með það. Menn lögðu spilin á borðið gagnvart kröfuhöfum og aflandskrónueigendum og þeim var það fullljóst hvað stóð til boða í þeim staðfasta og endanlega pakka sem fyrir þá var lagður. Þannig að þeir aðilar sem nú eru eigendur þessa 83–84 milljarða stabba eru engir sunnudagaskóladrengir. Þetta eru bara grjótharðir bisnessmenn sem eru búnir að átta sig á því að þeir eru svo heppnir að hér virðist vera við völd ríkisstjórn sem hefur það í eðli sínu að gefa eftir jafnt og þétt og er núna komin í fulla uppgjöf, algerlega fulla, gagnvart þeim sjónarmiðum sem sneru að stöðugleikaframlögunum og stöðugleikasamningunum sem gerð voru.

Hvort núverandi stjórnvöld upplifi það að planið hafi gengið svo vel að menn séu komnir með nóg, að heildarplanið hafi skilað það mörg hundruð milljörðum á endanum, að þetta sé bara orðið gott … Mér finnst við stjórnmálamenn ekki vera í þeirri stöðu að geta ýtt afrakstri þessarar aðgerðar frá ríkiskassanum, því að það er auðvitað það sem er að gerast með því að verðlauna þá aðila sem harðast gengu fram gagnvart okkur, með því að taka ekki þátt í lausninni, sem náðist sem betur fer að forma. Þeir eru núna að vinna það sem ég leyfi mér að kalla fullnaðarsigur. Það er auðvitað óskaplega svekkjandi. Ég átta mig ekki á hvað er undirliggjandi hjá hagsmunagæslumönnum okkar í þeim efnum.