149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[02:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er laukrétt hjá hv. þingmanni. Auðvitað er það öllum fyrir bestu að gegnsæi ríki í þessum málum og einmitt þess vegna kemur t.d. mjög á óvart að Píratar hafi ekki látið heyra í sér í umræðunni um að hér sé verið að hlunnfara þjóðina um allt að 33 milljarða kr. eða þar um bil.

Píratar, sem vilja hafa gegnsæi á öllum hlutum eins og allir vita, hafa engan áhuga á þessu máli. Við höfum rannsakað aðdraganda hrunsins nokkuð vel. En farið hefur mikið minna og nær ekkert fyrir því að við rannsökum það sem gerðist á Íslandi eftir hrun. Gerð hefur verið tilraun til þess. Sumu hefur verið mokað ofan í kassa og læst í 100 ár, eins og við þekkjum. Það er brýn nauðsyn að við opnum þær bækur og auðvitað er mjög brýnt að við fáum að vita hverjir standa á bak við þessa andlitslausu vogunarsjóði.