149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[03:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Þessi viðsnúningur er í raun alveg óskiljanlegur og þetta er svo sannarlega viðsnúningur. Ekki aðeins er farið á svig við þá áætlun sem búið er að samþykkja og marka af hálfu stjórnvalda heldur má segja að á margan hátt sé þeirri áætlun snúið á hvolf með því að hverfa frá grundvallaratriðum eins og þeim endanleika sem ég lýsti hér áðan og fara í staðinn í einhvers konar öfugt uppboð þar sem stjórnvöld eru alltaf að gefa meira og meira eftir. Í raun að láta setja sig í þá stöðu að bjóða gegn sjálfum sér. Það er með stökustu ólíkindum að mál hafi þróast með þessum hætti.

Hins vegar höfðu menn haft væntingar, þessir aðilar, um að betri tíð, út frá þeirra hagsmunum, gæti verið í vændum með breyttu stjórnarfari. Ný stjórn tekur við og ný stefna og það er stefna sem enginn stjórnarliði hefur í allan dag treyst sér til að útskýra, enginn hefur treyst sér til að segja okkur hvernig hún er til þess fallin að bæta hagsmuni Íslands. Hvers vegna leiddi hin nýja stefna til stórkostlegs ávinnings fyrir þessa erlendu aðila, fyrir þessa fjárfesta sem höfðu keypt þessar aflandskrónur á verulegum afslætti? Nú á að létta höftunum af þeim einhliða sem gengu hvað lengst og vildu síst spila með. Það er eitthvað sem vantar í þessa mynd en það er erfitt að átta sig á því þegar enginn stjórnarliði þorir að verja málið.