149. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[05:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða sem við höfum tekið þátt í hefur að mínu mati verið mjög góð, þó að hún hafi náttúrlega verið einhliða vegna þess að okkur vantar hina hliðina. Það vill enginn færa okkur hina hliðina. Auðvitað geldur umræðan fyrir það.

En ég er þess albúinn að halda umræðunni áfram. Ég þarf að vísu að mæta á nefndarfund klukkan níu, en að öðru leyti er ég þess albúinn að halda áfram að ræða málið eins lengi og þurfa þykir. Ég sé þá bara spæleggið í hádeginu í hillingum og gæti sem best haldið áfram að ræða málið þar til að því kemur. Þá verður væntanlega gert hádegishlé.

Mér er hins vegar mikil alvara með það að bragur væri á því að fresta umræðunni þar til fjármálaráðherra, sem hefur alla þræði í höndum sér, sem er öllum hnútum kunnugur, getur farið (Forseti hringir.) yfir það með okkur á sinn yfirvegaða og vandaða hátt.