149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að það sé talsvert langt í að við verðum sammála um þetta mál. Hagsmunir Íslands í þessu máli til lengri tíma litið eru að landið sé ákjósanlegur staður fyrir erlenda fjárfesta að fjárfesta. Erlend fjárfesting hefur í gegnum tíðina skipt okkur gríðarlega miklu máli og mun gera það áfram. Það er ekkert vestrænt ríki sem virðir lög og rétt sem reynir með einhverjum hætti að taka eignir erlendra fjárfesta eignarnámi. Við þekkjum það ágætlega úr einhverjum kommúnískum ráðstjórnarríkjum að slíkum ráðum er beitt. Þau ríki teljast ekki ákjósanlegir staðir fyrir erlenda fjárfesta til lengdar. Brýnustu hagsmunir okkar til lengdar þegar við horfum fram á næsta áratug eða næstu áratugi eru að trúverðugleiki íslenskra stjórnvalda sé fyrir hendi og að þau misbeiti ekki löggjafarvaldinu með einhverjum hætti til eignaupptöku á eignum erlendra fjárfesta einfaldlega vegna þess að sá hópur fjárfesta hugnast þeim ekki. Hér er ekki lengur nein neyð. Það hefur vel tekist til við endurreisnina (Forseti hringir.) og við getum engan rökstuðning sótt í efnahagslega stöðu okkur núna til að beita álíka úrræðum og við gerðum 2009 eða 2016.