149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[16:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Það er mjög mikilvægt að við reynum að draga fram kjarna málsins og ég held að búið sé að gera það núna ágætlega. Því miður virðist það vera þannig að það hreyfir ekki mikið við þeim sem vilja reyna að fá málið í gegn.

Ég vil hins vegar koma því á framfæri og velta upp við þingmanninn hvort það sé ekki einmitt lykilatriði, til að gæta jafnræðis milli allra þeirra sem hafa verið læstir inni með eignir sínar, að ferlinu sé fylgt. Ef við værum hins vegar að tala um einhvers konar ný lög, nýja nálgun eða nýja aðferðafræði væri mögulegt að hún gæti skapað einhvers konar kurr milli þeirra sem hafa þurft að sætta sig við mismunandi verð á sínum eignum og mögulega þá skapað einhvers konar bótaskyldu eða endurkröfurétt eða eitthvað slíkt. Ég velti þessu bara upp.

En það er svo merkilegt að manni finnst einhvern veginn núna vera svo margt sameiginlegt með þeim sem vilja láta þetta mál renna í gegn og þeim sama flokki fólks sem talaði fyrir því að hinir glæsilegu Icesave-samningar ættu að renna hér í gegn á sínum tíma.