149. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[17:35]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur prýðisræðu. Henni varð tíðrætt, eins og mörgum öðrum ræðumönnum, um þá stöðu sem er uppi og þær breytingar sem urðu á losun fjármagnshafta eftir sumarið 2016 og um þá spurningu af hverju var sveigt frá þeirri prýðisáætlun. Ýmsu hafa menn kastað á milli en kannski ekki fengist skýr svör. Það má kannski vona að eftir að næsti ræðumaður hefur lokið máli sínu séum við nær því svari.

En mig langar að spyrja þingmanninn í ljósi stöðu um þessa peninga og þá fjármagnseigendur sem ekki hafa gefið eftir í ferlinu en eru nú til umræðu eða þeir peningar sem þeir eiga, leiðindaspurning: Af hverju? Getur þingmaðurinn leitt að því líkur hvers vegna var sveigt af leið um losun fjármagnshafta sem áætlun var gerð um í júní þetta ár? Og komið með getgátur eða svarað því á þessari stundu?