149. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[13:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ætla að greiða þessu frumvarpi atkvæði og geri það af góðri sannfæringu fyrir því að það sé rétt skref. Ég er ánægður og ég er glaður að fá að vera hér og taka þátt í því á þessum degi að taka eitt af síðustu skrefunum sem með mjög táknrænum hætti kemur okkur í burtu frá hruninu, þeim erfiðu tímum og erfiðu hlutum sem því tengdust. Það er í raun stórkostlegt að vera hér þó ekki nema tíu árum síðar eða svo og sjá hversu stórkostlega mikið staða Íslands hefur batnað á allan hátt. Til marks um það er m.a. það að við ráðum núna við þetta skref án þess að þurfa að hafa í raun og veru nokkrar áhyggjur. Það var ekki svo þegar við áttum ekki gjaldeyri fyrir olíu og lyfjum í nóvembermánuði 2008.

Við þetta tækifæri vil ég þakka þeim sem hafa lagt mikið af mörkum í þessum efnum, Seðlabanka Íslands, sem ekki er nú alltaf hrósað, en hann á hér mjög góðan hlut að máli, starfsfólki fjármálaráðuneytisins og ráðgjöfum Íslands í gegnum allan þennan tíma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)