149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[14:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanni fyrir að benda á að fólki þyki oft ekki á samkomulag treystandi, vegna þess að ég held að það sé vandamál á báða bóga í þessu máli. Mér vitanlega er ekki vinna í gangi innan samgönguráðuneytis til þess að finna næsta skref, nýjan flugvöll til að koma í stað Vatnsmýrarvallar. Ef þingmaðurinn veit betur vil ég endilega heyra það vegna þess að það er grundvöllur t.d. meirihlutasamkomulags flokkanna í borgarstjórn að samgönguráðherra sé að vinna þá vinnu.

Meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar, þegar við afgreiddum hér samgönguáætlun, endurspeglar því miður ekki að sú vinna sé í gangi. Hér hafa verið nefndar hugmyndir að öðrum þjóðaratkvæðagreiðslum sem hægt væri að fara út í ef þetta fordæmi yrði sett.

Mig langar að nefna hér nokkrar í viðbót.

Hvernig þætti þingmanninum að við greiddum þjóðaratkvæði um veg í gegnum Teigsskóg? Eða um það hvort sveitarfélög á Austurlandi, sem eru að skoða sameiningu, sameinist? Eigum ekki að láta þjóðina ákveða það? Eða eigum við að greiða þjóðaratkvæði um jöfnun atkvæða? Það myndi kannski losa okkur við svona tillögur.