149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[15:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingmaður leggi það ekki ævinlega í vana sinn að snúa út úr. Ég er ekki bara að tala um þéttingu byggðar eða loftslagsmál. Ég er að tala um þetta mál í stóra samhenginu. Þetta snýst ekki um bara fragt á fólki til og frá heldur hefur það áhrif á ýmislegt annað og við þurfum að horfa til framtíðar. Ég er einmitt sammála því að við eigum að tengja saman landshluta. Og eins og Róbert Guðfinnsson sagði í greininni er ég á því að það sé betra fyrir landsbyggðina að finna gott flugvallarstæði í nágrenni Reykjavíkur og geta tengst millilandaflugi beint í innanlandsflug, í staðinn fyrir eins og það er í dag, að þurfa að keyra frá Keflavík og til Reykjavíkur, eða að við sem erum t.d. frá Akureyri þurfum alltaf að gista í Reykjavík áður en við förum til útlanda.

Ég er sammála hv. þingmanni um að völlurinn eigi að vera þarna þangað til önnur lausn er komin og mér hefur heyrst allir vera það, borgarfulltrúar og aðrir. En ég vil þó minna hv. þingmann á, af því að hann nefndi bæjarstjórn áðan, að það þurfti töluverða aflsmuni til að draga hann á þann stað sem hann er þó á núna vegna þess að þegar hann kom hér fyrst og fór að ræða þetta mál var nákvæmlega þessi staðsetning upphafið og endirinn á öllu sem kom til greina. Ef hv. þingmaður ætlar að rengja það þarf ekki annað en að fletta upp svipaðri þingsályktunartillögu frá 146. þingi þar sem hv. þingmaður er ekki kominn á þann stað að tala um þangað til annar jafn góður eða betri kostur sé kominn, heldur segir hann bara „Reykjavíkurflugvöllur“ og afhjúpar sig svo pínulítið í greinargerðinni, hann hefur sennilega gleymt að uppfæra hana.

En þetta er alvarlegt mál og því er best lýst þegar fyndnasta atriðið í áramótaskaupinu er farið að snúast um tilgangslausar deilur hjóna um flugvöll án þess að þau reyni að leggja fram nokkur rök fyrir máli sínu. Ég held að með því að (Forseti hringir.) framfylgja vinnu samráðshópa á vegum samgönguráðuneytisins eigum við möguleika á að ná sátt sem allir í þessum sal geta verið sáttir við, betra fyrir borgina og betra fyrir okkur landsbyggðarfólk.