149. löggjafarþing — 73. fundur,  1. mars 2019.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

86. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. 17 ár um þetta mál, þetta eru að verða þrír áratugir hjá mér. Ég hef fylgst vel með því sem hefur gerst í málinu og sögu þess. Það er gríðarlega mikilvægt í þessu máli að átta sig á því sem héraðsdómur og Hæstiréttur fjölluðu um í dómsniðurstöðum á sínum tíma, að skoða t.d. niðurstöður hjá héraðsdómi þar sem dómarinn bendir á hvaða leiðir eigi að fara í málinu er snúa að öryggismálum. Stóra vandamálið við þessa dóma er að þeir snerust bara um samningana, að samningar skyldu standa. Málið fyrir dómi, héraðsdómi og Hæstarétti, sneri aldrei að flugöryggi eða öryggishagsmunum samfélagsins. Málið var heldur aldrei borið þannig fram á þeim tíma, heldur bara þetta atriði, efnislega, um að samningurinn skyldi standa. Það þarf að koma skýrt fram og er mjög alvarlegt í samhengi hlutanna.

Þá ítreka ég það sem ég hef sagt hér áður í dag um viðbrögð borgarstjóra Reykjavíkur við viðtali við mig í Morgunblaðinu í byrjun desember. Borgarstjóri segir að mögulega hefði átt að skoða öryggismálin betur í öllu þessu máli. Það hefur ekki verið neinn forgangur hjá borginni að skoða öryggishagsmuni tengda öllu þessu máli. Það hefur verið stefna núverandi borgaryfirvalda mjög lengi að koma flugvellinum frá. Það hefur verið undirliggjandi mjög lengi. Menn hafa aldrei náð því hvernig lenda eigi málinu í stóru myndinni þannig að menn geti (Forseti hringir.) komist sáttir frá málinu í heildarsamhenginu.