149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

breyting á sveitarstjórnarlögum.

90. mál
[18:39]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held, ólíkt hv. þingmanni, að taka þurfi þessa umræðu einmitt saman. Þetta eru ekki óskyld mál, þ.e. hversu mikið er greitt fyrir og hversu mikinn tíma sveitarstjórnarfólk fær til að setja sig inn í sín málefni og hins vegar fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn. Ég held einmitt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að sveitarstjórnarfulltrúar átti sig kannski ekki alltaf á því að um fjölskipað stjórnvald er að ræða og þar af leiðandi á ábyrgð sinni í öllum málaflokkum, og við það að sveitarstjórnarfulltrúar verði fleiri og verkaskiptingin verði meiri, þá átti fólk sig kannski á ábyrgðinni sem í þessu felst. Ég held því að það sé algjörlega nauðsynlegt að taka þessa umræðu samþætta. Það eru hreinlega takmörk fyrir því hvað eðlilegt er að stór hluti af kostnaði falli til vegna stjórnsýslu eða yfirbyggingar og þar af leiðandi sveitarstjórna eða bæjarfulltrúa.

Hvað nefndakerfið varðar eru auðvitað líka takmörk fyrir því hvað nefndir geta verið litlar. Ég er meira að velta fyrir mér í þessum málum að ekki sé verið að stækka sveitarstjórnir um of, frekar en það sem hv. þingmaður er kannski að koma inn á, að fulltrúum verði fækkað verulega.

Hv. umhverfis- og samgöngunefnd fær þetta mál núna til umfjöllunar og mér finnst full ástæða til að fara yfir það hvort hægt sé að nálgast þessi markmið með einhverjum öðrum hætti.

Stóra málið hjá okkur sem þetta frumvarp flytjum er að setja ábyrgðina sem mest á hendur sveitarstjórnanna sjálfra. Auðvitað áttum við okkur alveg á því að það kann að vera einhver hvati til að stækka ekki um of eða fækka. Samband íslenskra sveitarfélaga er oft með ágætisleiðbeiningar til sveitarfélaga. Það væri alveg ástæða til að horfa til þess að einhverjar leiðbeiningar væru annars vegar um kjör sveitarstjórnarfulltrúa og hins vegar um fjölda sveitarstjórnarmanna eftir stærðum sveitarfélaga. Það er oft þannig að sveitarfélögin elta svolítið hvert annað í svona efnum. (Forseti hringir.) Það er því að ýmsu að hyggja.

En fyrst og fremst viljum við að sveitarstjórn hafi aukið vægi í því að ákveða fjölda fulltrúa og það sé ekki njörvað niður með þeim hætti sem gert er í dag.