149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

fiskeldi.

647. mál
[11:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 1060 sem er 647. mál. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Frumvarp með sama heiti var lagt fram á 148. löggjafarþingi og það var, líkt og það sem ég mæli fyrir hér í dag, að verulegu leyti byggt á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem skipaður var af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nóvember 2016 og sá hópur skilaði skýrslu sinni hinn 21. ágúst 2017. Þessi starfshópur var skipaður fulltrúum frá Landssambandi fiskeldisstöðva, Landssambandi veiðifélaga, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti, en þessir hagsmunaaðilar voru sammála um tillögur starfshópsins. Í vinnu hans var haft samráð við þær stofnanir sem hafa lögbundið stjórnsýsluhlutverk vegna fiskeldis. Það eru stofnanir eins og Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Þá komu einnig ýmsir hagsmunaaðilar til fundar við starfshópinn, svo sem fulltrúar sveitarfélaga og ýmissa frjálsra félagasamtaka sem m.a. tengjast náttúruvernd.

Fyrra frumvarpið var birt til samráðs á vef Stjórnarráðsins þann 30. janúar 2018 og bárust 30 umsagnir um það mál. Ráðuneytið vann úr þeim umsögnum við endurskoðun frumvarpsins og ný drög að frumvarpi voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda þann 20. desember sl. Í það sinnið barst 31 umsögn sem farið var vandlega yfir. Frumvarpið hefur því tekið nokkrum breytingum síðan þá.

Markmið þessa frumvarps er að styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu fiskeldis og með því að ýta undir að fiskeldi verði sterk og öflug atvinnugrein þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkisins er höfð að leiðarljósi. Frumvarpið byggir á sáttmála ríkisstjórnarinnar en þar segir að fiskeldi sé vaxandi atvinnugrein sem feli í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þurfi að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þurfi að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Loks segir að eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þurfi að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.

Virðulegi forseti. Almennt má segja að þær umhverfislegu áskoranir sem blasa við íslensku fiskeldi séu af þrennum toga. Í fyrsta lagi er lífrænt álag eða mengun, í öðru lagi sníkjudýr líkt og laxalús og í þriðja lagi erfðablöndun við villta laxastofna. Ég tel rétt í þessari framsögu að fara stuttlega yfir þessi þrjú atriði með tilliti til þeirra breytinga sem frumvarpið kveður á um.

Í fyrsta lagi varðandi lífrænt álag liggur fyrir að Hafrannsóknastofnun hefur frá árinu 2015 unnið að því að fara í þá firði þar sem ráðgert er að stunda fiskeldi og mæla svokallað burðarþol þeirra fjarða, þ.e. hversu miklu af lífrænu álagi umrætt hafsvæði getur tekið á móti án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríki fjarðarins. Þetta er í daglegu tali kallað burðarþolsmat. Samkvæmt frumvarpinu skal Hafrannsóknastofnun vakta lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols og endurskoða matið svo oft sem þörf þykir að mati stofnunarinnar. Jafnframt er í frumvarpinu kveðið á um að lífmassi eldisdýra í rekstrarleyfum megi aldrei verða meiri en burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar segir til um.

Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skuli m.a. fela í sér vöktun á viðkomu laxalúsar í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem metur hvort og þá hvaða aðgerða er þörf vegna laxalúsar. Þá er í frumvarpinu lögð sú skylda á rekstrarleyfishafa að gefa Matvælastofnun mánaðarlega skýrslu um starfsemi sína. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um sjúkdóma og sníkjudýr. Þá er einnig að finna heimild fyrir ráðherra til að mæla í reglugerð fyrir um aðgerðir vegna sníkjudýra í fiskeldi, svo sem um skyldu rekstraraðila til að telja laxalús við tilteknar aðstæður, tiltekin viðmiðunarmörk þar sem viðbragða er þörf og aðgerðir vegna útbreiðslu laxalúsar. Framangreint verður útfært nánar í samvinnu við sérfræðinga Matvælastofnunar.

Loks vil ég nefna erfðablöndun við villta laxastofna en það er sú áskorun sem við er að glíma sem hefur fengið mesta athygli í opinberri umræðu. Stefna stjórnvalda er að ákvarðanir um uppbyggingu fiskeldis verði byggðar á ráðgjöf vísindamanna. Af þeim sökum er í frumvarpinu kveðið á um að áhættumat erfðablöndunar verði lögfest og þannig tryggt að það verði lagt til grundvallar leyfilegu magni af frjóum eldislaxi í sjókvíum á hverjum tíma en matið segir til um hversu mikið magn laxa er óhætt að ala í sjókvíum á ákveðnu svæði þannig að ekki hljótist af skaði fyrir villta laxastofna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun geri bindandi tillögur að áhættumati erfðablöndunar en tillögurnar verði áður bornar undir samráðsnefnd um fiskeldi til faglegrar og fræðilegrar umfjöllunar. Sú nefnd getur þó ekki gert neinar breytingar á áhættumatinu. Ráðherra staðfestir í kjölfarið áhættumat erfðablöndunar samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar og er sú tillaga bindandi fyrir ráðherra. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að Hafrannsóknastofnun skuli leggja tillögu að endurskoðuðu áhættumati erfðablöndunar fyrir samráðsnefnd um fiskeldi innan tveggja mánaða eftir að lögin hafa verið birt í Stjórnartíðindum.

Með því að lögfesta áhættumat erfðablöndunar eru stjórnvöld að takast á við þetta vandasama verkefni með vísindalegum aðferðum. Aðeins með þeim hætti mun skapast traustur grunnur til farsællar uppbyggingar laxeldis í fullri sátt við umhverfið.

Með frumvarpinu er Matvælastofnun heimilað að breyta ákvæðum rekstrarleyfa í samræmi við breytingar á útgefnu áhættumati erfðablöndunar eða breytingar á útgefnu burðarþoli. Vegna þessarar áherslu á rannsóknir og vöktun lífríkisins gerir frumvarpið einnig sérstaklega ráð fyrir heimild Hafrannsóknastofnunar til að stunda tímabundnar rannsóknir á fiskeldi í fiskveiðilandhelgi Íslands, ein eða þá í samstarfi við aðra. Með því er horft til þess að auðvelda og greiða fyrir nauðsynlegum rannsóknum vegna fiskeldis og þá sérstaklega eldistilraunum vegna sjókvíaeldis.

Virðulegi forseti. Undanfarna mánuði hef ég fengið að kynnast uppbyggingu fiskeldis í okkar helstu nágrannalöndum sem það stunda, m.a. Noregi og Færeyjum. Þessar þjóðir eru komnar mun lengra en við Íslendingar í að byggja upp öflugt fiskeldi og því fróðlegt að læra af því sem vel hefur verið gert í þeim löndum. Í því samhengi er áhugavert að ein helsta ráðgjöf þessara þjóða til okkar Íslendinga var sú að stuðla að sem nánastri samvinnu þeirra lykilþátta sem koma að uppbyggingu greinarinnar. Þannig kom t.d. fram í kynningu frá fulltrúa norska sjávarútvegsráðuneytisins að helsti lykillinn að velgengni í norsku fiskeldi væri samvinna fulltrúa fjögurra helstu lykilþátta þessa verkefnis, í fyrsta lagi stjórnvalda, í öðru lagi fiskeldisfyrirtækja, í þriðja lagi náttúrunnar og í fjórða lagi vísinda.

Umræðan hér heima er hins vegar stundum með þeim hætti að maður upplifir eins og það þurfi að velja á milli tveggja sjónarmiða: Hvort viljum við byggja upp fiskeldi eða vernda náttúruna? Í mínum huga er þetta röng nálgun. Þessi grundvallaratriði bæði geta og eiga að fara vel saman enda er eldi á laxfiskum talið vera umhverfisvæn og sjálfbær matvælaframleiðsla. Því tel ég okkur Íslendinga geta gert mun betur í að láta þessa lykilþætti vinna saman. Með það að markmiði er í frumvarpinu sett á fót samráðsnefnd sem er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Markmið þessa er að styrkja vísindalegan grundvöll áhættumats erfðablöndunar og stuðla að nauðsynlegu samráði við uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Hlutverk samráðsnefndarinnar verður m.a. að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á. Því er afar mikilvægt að allir helstu aðilar hafi sameiginlegan vettvang til skoðanaskipta um þetta mikilvæga tæki sem áhættumatinu er ætlað að verða en einnig og ekki síður um aðra þætti sem snerta málefni fiskeldis. Í nefndinni munu eiga sæti fimm fulltrúar og skipar ráðherra formann nefndarinnar en þá tilnefna einnig í nefndina Hafrannsóknastofnun, fiskeldisstöðvar, Landssamband veiðifélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Virðulegur forseti. Meðal annara breytinga í frumvarpinu má nefna að lagt er til að hafsvæðum verði skipt í eldissvæði og heimiluð verði úthlutun með auglýsingu.

Þá er lagt til að stjórnsýsla verði efld og eftirlit aukið með fiskeldi. Í þessu felst að aukið gagnsæi verður um starfsemi fiskeldisfyrirtækja með tíðari upplýsingagjöf. Fyrirtækin munu taka upp innra eftirlit í auknum mæli og stjórnvöldum verður sömuleiðis heimiluð álagning stjórnvaldssekta.

Þá vil ég nefna að gert er ráð fyrir því að umhverfissjóður sjókvíaeldis verði efldur með auknum framlögum rekstrarleyfishafa til sjókvíaeldis og gert ráð fyrir að þeir greiði það til sjóðsins, en áfram er fyrirliggjandi veruleg rannsóknarþörf, það liggur einfaldlega mjög skýrt fyrir, sem sjóðurinn getur nýst í að svara.

Framtíðarsýn stjórnvalda sem birtist í þessu frumvarpi er að skapa íslensku fiskeldi bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og það verði sterk og öflug atvinnugrein. Við ætlum okkur hins vegar að vanda okkur í þessari uppbyggingu og stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis og villta laxins er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Ég vísa að öðru leyti til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Að lokinni þeirri umræðu sem hér á sér stað legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.