149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta.

639. mál
[15:33]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 61 frá 15. maí 2014, um ráðstafanir til að lækka kostnað við uppbyggingu á háhraða stafrænum fjarskiptanetum, auk breytinga á lögum um fjarskipti og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun.

Uppbygging og endurnýjun ljósleiðarastofnnetsins er eitt af meginmarkmiðum stjórnvalda hvað varðar markmið um aðgengileg og greið fjarskipti. Endurspeglast þetta markmið m.a. í tillögu til þingsályktunar um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019–2033 sem nú liggur fyrir Alþingi til samþykktar. Frá 2016 hafa stjórnvöld unnið að auknu aðgengi að ljósleiðara í dreifbýli utan markaðssvæða í gegnum verkefnið Ísland ljóstengt, sem er í umsjá fjarskiptasjóðs. Markmið stjórnvalda á sviði fjarskipta fyrir landið í heild er að 99,9% lögheimila og fyrirtækja eigi kost á 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu í árslok 2021. Sveitarfélög hafa með beinum hætti leitt þá uppbyggingu þar sem framlag úr byggðasjóðum hefur hjálpað verst settu sveitarfélögunum, þar sem dýrast er að leggja, fjarlægðir og slíkt, í þeirri vegferð. Þá hefur fjarskiptasjóður til margra ára lagt til fé til að mæta kostnaði við uppbyggingu fjarskiptainnviða á þeim svæðum þar sem er markaðsbrestur.

Á liðnum árum hefur mikið áunnist í útbreiðslu ljósleiðara á landsbyggðinni, en enn er óleyst ljósleiðaravæðing flestra byggðakjarna utan suðvesturhornsins. Svo er útbreiðsla fimmtu kynslóðar fjarneta (5G) handan við hornið, en uppbyggingu þess kunna að fylgja nýjar áskoranir.

Frumvarpinu sem er til umræðu er ætlað að auðvelda og hvetja til uppbyggingar háhraða fjarskiptaneta með því að stuðla að sameiginlegri nýtingu á tilteknum fyrirliggjandi efnislegum grunnvirkjum og með því að gera skilvirkari uppbyggingu á nýjum efnislegum grunnvirkjum mögulega þannig að kostnaður við útbreiðslu slíkra neta verði mögulega lægri. Lækkun kostnaðar við uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta er talin styðja við metnaðarfull markmið stjórnvalda tengd útbreiðslu ljósleiðara á landsvísu, vexti, samkeppnishæfni og framleiðni.

Við vinnslu frumvarpsins var horft til þess að tilskipunin tilgreinir einungis lágmarkssamræmingu en ríkjum er frjálst að innleiða ráðstafanir sem ganga lengra en þau lágmarksskilyrði sem tilskipunin tiltekur. Þá hefur tilskipunin einnig að geyma valkvæð ákvæði, en við vinnslu frumvarpsins var einkum horft til þeirra ákvæða sem myndu skapa hóflegt svigrúm í framkvæmd og ekki leggja auknar íþyngjandi skyldur á þá aðila sem tilskipunin varðar.

Frumvarpið tekur til þeirra aðila sem skilgreindir eru sem rekstraraðilar neta. Hugtak þetta tekur m.a. til fyrirtækja sem bjóða fram efnisleg grunnvirki sem ætlað er að veita þjónustu í tengslum við framleiðslu, flutninga eða dreifingu á rafmagni, þar með talið götulýsingu, upphitun og vatn, þar með talið losun eða hreinsun skólps, og frárennsliskerfi, og rekstraraðila samgöngumannvirkja, vega, hafna og flugvalla.

Þá ná þær skyldur og þau réttindi sem frumvarpið tilgreinir til efnislegra grunnvirkja eins og tilskipunin skilgreinir þau, þ.e. netþætti sem ætlað er að hýsa aðra netþætti án þess að verða sjálfur að virkum þætti í netinu, svo sem rör, möstur, lagnir, brunnar til að sinna eftirliti, mannop, tengikassar, byggingar eða inngangur að byggingum, loftnetsbúnaður, turnar og súlur. Kaplar, þar með talinn svartur ljósleiðari, á ensku kallaður „dark fiber“, sem og netþættir sem ætlaðir eru til að afhenda neysluvatn teljast ekki grunnvirki í skilningi tilskipunarinnar og falla því utan gildissviðs frumvarpsins.

Í stuttu máli eru meginatriði frumvarpsins:

Að tryggja aðgengi fjarskiptafyrirtækja að tilteknum lágmarksupplýsingum rekstraraðila neta um annars vegar fyrirliggjandi efnisleg grunnvirki og hins vegar yfirstandandi eða fyrirhugaða leyfisskylda mannvirkjagerð í því skyni að kanna möguleika á samnýtingu fyrirliggjandi innviða eða samhæfingu framkvæmda og hraða uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta.

Að gera fjarskiptafyrirtækjum kleift að framkvæma vettvangsskoðun á sérstökum þáttum efnislegra grunnvirkja.

Að skylda rekstraraðila neta að verða við öllum réttmætum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að efnislegu grunnvirki sínu samkvæmt sanngjörnum skilmálum. Sérstakar skyldur eru lagðar á þá rekstraraðila neta sem standa með beinum eða óbeinum hætti að mannvirkjagerð sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð úr opinberum sjóðum. Almennt er miðað við að slíkir aðilar veiti aðgang að efnislegu grunnvirki sínu eða fyrirhugaðri mannvirkjagerð, svo fremi sem slík beiðni um samhæfingu hafi ekki í för með sér aukinn viðbótarkostnað, svo sem vegna tafa, hindri ekki stjórnun framkvæmdar og umsókn um samhæfingu sé lögð inn a.m.k. mánuði fyrir umsókn um leyfisveitingu.

Rekstraraðilum neta verði heimilað að ganga til samninga við fjarskiptafyrirtæki um samhæfingu í mannvirkjagerð með uppbyggingu háhraða fjarskiptaneta í huga.

Samkvæmt frumvarpinu fær Póst- og fjarskiptastofnun bæði hlutverk og úrræði til að hvetja til þessarar þróunar, svo sem með gagnagrunnsgerð um fjarskiptainnviði, miðlun upplýsinga og leiðbeininga til aðila og úrskurðarvald í ágreiningsmálum.

Víðtækt samráð var haft við hagsmunaaðila meðan á vinnslu frumvarpsins stóð. Hagsmunaaðilar deildu einkum um þá fyrirætlan að undanskilja svartan ljósleiðara og innleiða hugtakið efnisleg grunnvirki úr tilskipuninni samkvæmt orðanna hljóðan. Að höfðu samráði við Póst- og fjarskiptastofnun var það mat ráðuneytisins að innleiðing tilskipunarinnar í íslenskan rétt ætti ekki að raska samkeppnisumhverfi á fjarskiptamarkaði. Ef fara ætti út í slíka ráðstöfun, þ.e. að binda svartan ljósleiðara aðgangskvöð, hvort sem slík aðgangskvöð væri almenn eða næði aðeins til opinberra aðila á markaði, þyrfti að liggja fyrir vel ígrunduð greining á áhrifum slíkrar ráðstöfunar á samkeppnisaðstæður og þeim fjárhagslegu hagsmunum sem þar vegast á, að teknu tillit til mögulegs samfélagslegs ávinnings sem slíkt kynni að hafa í för með sér. Þetta er helsta ágreiningsefnið hjá þeim sem skilað hafa umsögn um frumvarpið. Nú er hafinn undirbúningur fyrir innleiðingu á svokölluðum fjarskiptapakka ESB sem felur í sér heildarendurskoðun á öllu fjarskiptaregluverki hér á landi. Í því verkefni sem hafið er fer fram sú greining sem nefnd var að framan. Í ljósi þessa var það mat mitt að ekki væri tímabært að útvíkka hugtakið efnisleg grunnvirki til svarts ljósleiðara.

Loks bera að geta þess að lagðar eru til breytingar á lögum um fjarskipti og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Breytingar þær miða að því að samræma hugtakanotkun tilskipunar og laga um fjarskipti, tryggja málskot rekstraraðila neta til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og gera Póst- og fjarskiptastofnun kleift að byggja upp stafrænan gagnagrunn um alla innviði fjarskipta hér á landi. Er um að ræða útvíkkun á gildandi ákvæðum laga um fjarskipti hvað gagnagrunninn snertir sem í dag tekur einungis til þráðlauss sendibúnaðar.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.