149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

staða Íslands í neytendamálum.

[14:42]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir að hefja hér umræðu um stöðu Íslands í neytendamálum. Það er mikilvægt mál sem snertir okkur öll á víðtækan hátt. Ég vil einnig þakka hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir hennar innlegg í umræðuna.

Varðandi smálánin vil ég þakka ráðherra fyrir upplýsingarnar um þau og Guðmundur Ingi Kristinsson ræddi um. En það er gott að verið er að bregðast við og vonandi verður það sem fyrst sem við getum komið einhverjum böndum á þessi mál.

Hér er spurt hvort neytendamálin hafi fengið nægilegt vægi á Íslandi. Að mínu viti er svarið við þeirri spurningu því miður nei. Í skýrslu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um neytendamál frá 146. þingi er m.a. bent á að upplýsingar um lagaleg réttindi neytenda séu ekki nægilega aðgengilegar fyrir almenning og því þurfi að breyta. Til eru ýmsar reglur en það getur verið erfitt að nálgast þær og vinna með þær.

Til að efla hinn almenna neytanda í því að gæta réttar síns þurfa lög og reglur sem gilda um neytendavernd að vera aðgengilegar og skiljanlegar. Þeir ferlar sem neytendur þurfa til að leita réttar síns þurfa einnig að vera skýrir. Mæta þarf aukinni kröfu neytenda um upplýsingar, t.d. um uppruna vöru, kolefnisspor, framleiðsluferli efna og lyfjanotkun. Nútímatækni og nýsköpun geta gert framleiðendum kleift að koma viðbótarupplýsingum til viðskiptavina sinna með ýmsum hætti vilji þeir koma betur til móts við þá. Nauðsynlegt er að efla og treysta neytendavitund Íslendinga með aukinni fræðslu og upplýsingagjöf.

Endurskoðun er í gangi á verklagsreglum um skilarétt, gjafabréf og inneignarnótur sem skiptir neytendur miklu máli. Þingsályktunartillaga um slíka endurskoðun er í umfjöllun hjá allsherjar- og menntamálanefnd og í ráðuneytinu eins og kom fram í máli ráðherra. Þeirri vinnu þarf að hraða og gera það eftirsóknarvert gæðamál söluaðila vöru og þjónustu að fylgja þeim viðmiðunarreglum sem settar verða neytendum til hagsbóta.