149. löggjafarþing — 80. fundur,  19. mars 2019.

skráning og mat fasteigna.

212. mál
[16:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna. Ég ætla ekki að lengja umræðuna sem neinu nemur, en tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram í ræðum nokkurra þingmanna.

Rætt hefur verið lítillega um heildarendurskoðun á lögum um skráningu og mat fasteigna. Ég held að afar mikilvægt sé að við sem þing og löggjafarvald vekjum máls á því og vekjum athygli á því ekki bara gagnvart sjálfum okkur og samfélaginu heldur líka gagnvart sveitarfélögunum að við séum til í það samtal. Við séum tilbúin að taka samtal um hvernig þetta verði gert.

Eins og hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um eru fjölmörg atriði þarna sem skipta máli. Fasteignagjöld, eins og við þekkjum þau í hefðbundnum skilningi, eru samsett úr mörgum þáttum eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á áðan. Þá er það sem í daglegu tali er kallað fasteignaskattsprósentan, sem segir í sumum tilfellum minna en hálfa söguna en í öðrum kannski ríflega. Þannig eru gjöld eins og vatnsgjaldið eða vatnsskattur, holræsagjald og fleiri lóðagjöld og annað þess háttar hluti af því gjaldi og það þarf að taka þetta allt í einu heildarsamhengi.

Tilgangur minn með því að koma í ræðustól er fyrst og fremst að vekja athygli á þessu. Þetta mun koma meira og meira inn í umræðuna, hvort það eigi fremur að láta rúmtak fasteigna verða andlag fasteignagjalds en fermetrafjölda, þ.e. í matinu. Það mun koma meira og meira inn í umræðuna hvort lóðagjöld í fasteignamati eigi að koma meira inn í fasteignaskattinn og eigi að hafa meiri áhrif á gjaldtökuna og í einhverjum tilfellum kannski minni.

Það hefur komið fram í umræðu að t.d. verðmat á landi, í dreifbýli fyrst og fremst, er stundum algerlega út úr korti við það sem er síðan kaupverð eða söluverð á því sama landi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, frú forseti. Ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á þessu atriði, að því sé flaggað að þingið hafi áhuga á að fá til umræðu heildarlöggjöf um þetta mál.