149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

sjúkratryggingar.

644. mál
[11:21]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins á að bæta svohljóðandi málsgrein við 34. gr. laganna, með leyfi forseta:

„Sjúkratryggingastofnun ber að upplýsa framangreinda aðila um fyrirhugaða upplýsingaöflun skv. 3. mgr. eins og hægt er hverju sinni.“

Þá ber Sjúkratryggingastofnun skylda til að upplýsa umsækjendur um alla fyrirhugaða upplýsingaöflun hjá stofnuninni. Einnig ber að fræða umsækjendur áður en til vinnslu kemur um tilgang vinnslunnar, lagagrundvöll hennar, hvaða tegund upplýsinga er notuð, hversu lengi upplýsingar eru varðveittar og hvort upplýsingum sé miðlað til annarra og þá til hverra og hvers vegna.

Þar sem um lögbundna fræðsluskyldu stofnunarinnar er að ræða á grundvelli persónuverndarlaga skýtur það dálítið skökku við að skjóta inn í b-lið að stofnunin þurfi aðeins að sinna þessari skyldu „eins og hægt er hverju sinni“.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvers vegna Sjúkratryggingastofnun eigi að fá þetta svigrúm til að í raun og veru að ganga gegn réttindum skráðra einstaklinga. Hvers vegna er þetta orðað á þennan hátt?