149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

ávana- og fíkniefni.

711. mál
[11:51]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil, rétt eins og hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, lýsa yfir ánægju minni með að þetta frumvarp sé komið fram og lýsa yfir mínum stuðningi við framgang þess á þingi. Hv. þingmaður var reyndar á undan mér með þá spurningu sem ég hafði hvað mestan áhuga á að ræða sem sneri að vernd þessara einstaklinga þegar þau eru á leið til og frá neyslurýmum.

Ég velti fyrir mér, rétt eins og hæstv. ráðherra talaði um, refsileysi fyrir þá heilbrigðisstarfsmenn sem taka þátt í þessu, hvort ekki þurfi að skoða svoleiðis nálgun gagnvart þessu. Ég hugsa um þetta líka út frá réttaröryggi og skýrleika refsiheimilda. Ef það liggur fyrir að það má ekki vera með fíkniefni á sér — það er bara þannig, þannig eru lögin — hvernig útskýrum við það og hvernig kemur það fyrir dómstóla og hvernig getur það verið skýrt fyrir fólkið sem er á leið til eða frá neyslurými að það muni hugsanlega sæta refsingu fyrir það, en hugsanlega ekki?

Hæstv. ráðherra vísaði í að sá praxís hjá lögreglu væri hverfandi að handtaka fólk fyrir neysluskammta. Ég velti fyrir mér hvort hún hafi einhver gögn sem styðji þetta og fyrst svo er, hvort það sé ekki einmitt, eins og hæstv. ráðherra vék aðeins að, kominn tími á að afglæpavæða neysluskammta vímuefna.