149. löggjafarþing — 82. fundur,  21. mars 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:56]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Fyrst vil ég segja að ég tel þetta strandveiðifrumvarp, ef við köllum það svo, jákvætt skref í þágu líflegra strandveiða og jákvæðrar byggðastefnu, svo það sé frá.

En mig langar að brydda upp á umtalsefni sem við getum nefnt „umhverfisáhrif strandveiða“ eða „strandveiðar í ljósi loftslagsbreytinga“. Ef við skoðum einn og annan þátt þar, byrjum t.d. á veiðarfærunum sjálfum, getum við svo sem sagt að sjálf veiðarfærin krefjist ekki mikillar orku, t.d. handfærin eða annað slíkt, skyld veiðarfæri. Þau hlífa lífinu á botninum og seti og öðru slíku, ólíkt því sem sum önnur veiðarfæri gera.

Við getum horft til bátanna sjálfra. Þeir eru tiltölulega smáir og er hægt að hugsa sem svo að þeir henti vel til orkuskipta. Nú þegar hefur verið prófað að rafvæða báta sem eru þá annaðhvort þannig að þeir hlaða á rafgeyma eða menn stinga þeim í samband eins og bíl. Það er líka hægt að hugsa sér að vistvænt eldsneyti henti ágætlega á suma af þessum bátum. Þá er ég að tala um brunavélar eða jafnvel vetni, þannig að bátarnir sjálfir eru eða geta verið í þágu vistvænna veiða.

Og síðan má ekki gleyma því að þessar strandveiðar eru yfirleitt þannig, alls ekki alltaf en kannski í meiri hluta tilvika, að það er stutt ferð á miðin og þar með hófleg eða lítil notkun eldsneytis og jafnframt lítil eða hófleg losun gróðurhúsalofttegunda.

Einnig má líka horfa til aflans sjálfs. Við skulum segja að hann sé yfirleitt mjög vel með farinn vegna veiðiaðferðanna sjálfra. Það eru lítil afföll. Lítil sóun verður þegar aflinn er nýttur. Þannig að allt horfir þetta nú til betri vegar í umhverfislegu tilliti eða loftslagstilliti.

Svo má ekki gleyma félagsþættinum sjálfum. Hann er nefnilega umhverfisþáttur í leiðinni. Þá á ég við að byggð sem dreifð er um landið er jákvæð í þágu sjálfbærni. Þar eru stuttar vegalengdir, hvort sem er á atvinnusvæðin eða til þjónustusvæða. Ef byggðin er ekki samþjöppuð á örfáa kjarna á öllu landinu og menn þurfa að sækja langt til að ná í eitthvað eða fara á milli kjarna, þ.e. ef byggðin er dreifð í landinu, er þessi umhverfisþáttur býsna skýr og hann byggir að sjálfsögðu að hluta til, og mun alltaf byggja, á strandveiðum.

Við getum svo horft til eins neikvæðs þáttar sem væri þá allur sá flutningur á afla eða vöru sem tengist þessum strandveiðum nú til dags, vegna þess að núna er því þannig háttað að mikið af flutningum á t.d. fiski fer jú fram á vegum landsins. En vonir standa til þess, bæði með meiri vinnslu heima við og kannski útflutningi frá höfnum sem eru nálægar, eða flugvöllum í þessu tilviki, að það muni horfa til betri vegar smám saman. Auðvitað er líka verið að breyta flutningstækjunum sjálfum, þ.e. bílunum, til umhverfisvænni hátta.

Af hverju ég er að fjalla stuttlega um þessa umhverfis- og loftslagsliði strandveiðanna hér? Mig langar að reyna að setja það í stóra samhengið. Þá er ég að tala um heildrænt samhengi á heimsvísu. Mig grunar, og ég sé þess merki, að kröfur um lágt vistspor matvæla verði æ háværari. Ég er ekki að tala um að það sé orðin almenn krafa í öllum heiminum. En þetta kemur fram víða í heimi. Það kemur fram meðal fyrirtækja, meðal almennings og jafn vel samtaka, félaga, stofnana, að við öflun og við meðhöndlun og við flutninga sé þess gætt að vistsporið sé sem allra lægst.

Það liggur í augum uppi að strandveiðar geta fallið í flokk tiltölulega vistvænnar matvælaframleiðslu, ef við getum orðað það þannig, með tiltölulega lágu vistspori. Ég segi ekki engu neikvæðu vistspori en tiltölulega lágu neikvæðu vistspori.

Sama má gilda um tilhneigingu um breytta búsetu þar sem viss afmiðjun á sér stað. Fólk er að flytjast úr þéttbýli í dreifbýli af mörgum orsökum. Þar verða þá til styttri vegalengdir sem við þurfum að leggja að baki við flesta þætti lífshátta okkar.

Þannig að breytt búsetumynstur, sú afmiðjun sem ég minnist á, fellur líka ágætlega að strandveiðum.

Þá má nefna í þriðja lagi að öflugar strandveiðar eru innlegg í matvælastefnu framtíðar á Íslandi. Ég ræddi hana stuttlega hér í pontu fyrir fáeinum dögum og minntist á að vaxtarbroddur iðnaðar á Íslandi, einn af þeim og kannski sá allra mikilvægasti til langrar framtíðar, væri matvælaframleiðsla. Ég er alveg sannfærður um að hún byggist að hluta til á hátækni og hluta til að einhvers konar — við getum kalla það stórútgerð eða ylrækt í stórum einingum. En hún mun líka ávallt byggjast á matvælaframleiðslu þar sem framleiðandinn er nálægt náttúrunni og þar sem neytandinn er nálægt framleiðandanum. Þess vegna tel ég öflugar strandveiðar innlegg í matvælastefnu framtíðarinnar, náttúrlega líka til þess hluta sem fer til útflutnings.

Mig langar svo að nefna að lokum að ég hef alltaf verið talsmaður þess að strandveiðikvótinn, byggðakvóti, félagslegur kvóti í fiskveiðum á Íslandi, verði stækkaður. Við getum sagt að hann sé núna 5,3%, en ég vil sjá hann mun stærri. Þá á ég ekki bara við að það tengist auknum kvóta, þ.e. stækkun kvótans, heldur einfaldlega tilfærslu milli þess sem við köllum stórfyrirtæki í útgerð og minni og meðalstór. Ég held að það sé kominn tími til og hafi raunverulega alltaf verið tími til þess að endurskoða þetta hlutfall og auðvitað er það sjálfsagt ef kvótinn stækkar í heild sinni.

Ég vil nefna það hér vegna þess að þetta er eitt af þeim málum sem ég sem vinstri maður lít á sem mikilvæg.

Ég ætla svo að endurtaka það sem ég sagði um frumvarpið. Ég tel að það sé til verulegra bóta og vænti þess að hv. atvinnuveganefnd sýni þessu mikinn skilning og afgreiði það fljótt og vel.