149. löggjafarþing — 83. fundur,  25. mars 2019.

lokun göngudeildar SÁÁ á Akureyri.

[15:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það og nákvæmlega sú staða sem nú er uppi vekur okkur til umhugsunar um það hversu heppilegt það er að eyrnamerkja upphæðir á fjárlögum tilteknum þjónustuveitanda, hvort það kunni að vera heppilegra að merkja fjárhæðirnar tiltekinni þjónustu sem þurfi að veita og eigi að veita. Eins og kemur fram í máli hv. þingmanns hafa fleiri aðilar veitt og geta veitt svipaða þjónustu og hér um ræðir. Til ráðuneytisins hafa leitað sérfræðingar á sviði áfengismeðferðar um að gera samninga um t.d. þessa starfsemi. Það mál er í skoðun innan ráðuneytisins en það breytir því ekki að Alþingi afgreiddi fjárlögin með þeim hætti að þessir peningar eru eyrnamerktir SÁÁ en ekki öðrum.