149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[13:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að gera mun á hagspám og einhverjum sviðsmyndagreiningum sem taka til skoðunar „hvað ef eitthvað myndi gerast?“ og „þá myndu einhver áhrif leysast út“. Ég kem hér upp til að benda á að við erum með í höndunum fjármálaáætlun sem gerir ráð fyrir að á næsta ári sé rétt um 29 milljarða afgangur af ríkissjóði. Ef þær forsendur sem við leggjum hér til grundvallar breytast verulega þurfum við að leggja mat á tekju- og útgjaldahliðina. Samanlögð áhrif af bæði tekju- og útgjaldahliðinni geta orðið til þess að ómögulegt sé að ná þessum tiltekna afgangi upp á 0,9%, og ég rakti áðan í hvaða ferli það mál færi þá.

Á meðan við erum að ganga á afganginn og segja: Það er óþarfi að vera með 0,9% afgang, þá þarf ekki að koma til endurskoðunar á öðrum útgjöldum ríkissjóðs. Þ.e. þá þarf ekki að fara í þann beina niðurskurð sem hv. þingmaður spyr um, svo lengi sem við náum skynsamlegum afkomutölum miðað við aðstæður.