149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sérstaklega varðandi bankaskattinn þá vil ég minna á að sá skattur var lagður á með þeirri skýru og ágætu réttlætingu að ríkið þyrfti að endurheimta hluta af þeim kostnaði sem það hefði lagt út í til að endurreisa fjármálakerfið. Nú er svo komið að ríkið hefur gert það. Við höfum endurheimt allan beinan kostnað ríkisins af endurreisn fjármálakerfisins. Þá stendur eftir spurningin um það hvort þessi skattur, sem í upphafi átti að vera tímabundinn og var hækkaður mjög verulega, m.a. meðan enn voru óuppgerð slitabú gömlu bankanna, eigi sér einhverja réttlætingu í dag í breyttu umhverfi.

Í nýlega útkominni hvítbók um fjármálakerfið er dregið mjög vel fram hvernig skattumhverfi fjármálafyrirtækja á Íslandi er, vegna þessa tiltekna skatts, allt annað og meira íþyngjandi fyrir fjármálastarfsemi en í samanburðarlöndunum. Og það sem meira er, það eru leidd að því rök að þetta sé ein ástæða þess að vaxtamunur á Íslandi sé meiri en annars staðar, eins og oft er í umræðunni. Það eru í fyrsta lagi skattar á banka, það er í öðru lagi mjög háar eiginfjárkröfur og áhættuvog vegna lána sem hafa áhrif og í þriðja lagi gjöld vegna innstæðutrygginga. Þetta eru allt þættir sem við höfum áhrif á.

Það er mín sannfæring að það sé rétt og skynsamlegt, ekki fyrir ríku karlana sem hv. þingmaður er að tala um, heldur fyrir fólkið í landinu, heimilin og fyrirtækin sem þurfa á fjármálaþjónustu að halda, að lækka þessar álögur vegna þess að það eru allar líkur á því að þetta sé ein meinsemdin í kerfinu í dag.