149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um aðhaldið. Sama almenna aðhaldskrafa er í þessari fjármálaáætlun og var í síðustu áætlun upp á um 5 milljarða kr., nema við lengjum þessa sömu aðhaldskröfu aðeins lengra inn í áætlunartímabilið um eitt ár en eftir það er almenna aðhaldskrafan 2 milljarðar á ári. Við bætist núna, já, við ætlum að gera meiri kröfu á opinbera reksturinn varðandi þjónustu og vörukaup og varðandi þróun launaliðarins heilt yfir.

Við gerum okkur grein fyrir að á launaliðnum er mannaflsfreka þjónustan einkum í heilbrigðisgeiranum. Við getum gert ráð fyrir því í framtíðinni að þar muni þurfa að fjölga. Það er töluvert mikil fjölgun í hópi eldri borgara á Íslandi síðastliðinn tíu ár og það mun að einhverju marki halda áfram. Það eru færri og færri vinnandi á móti þeim sem eru á lífeyrisaldri á Íslandi með árunum og það gerir kröfu til þess að við náum hagræðingu annars staðar til að þetta verði okkur ekki ofviða.

Ég ætla síðan að segja varðandi gagnsæið, mér finnst það ekki krafa um gagnsæi að menn byggi á öðru en gildandi hagspám. Ég tala ekki um þegar menn hafa birt fráviksspár. Ef menn vilja gagnrýna fjármálaáætlunina fyrir það að gildandi hagspár séu að riða til falls þá er það í sjálfu sér bara gagnrýni á hagspárnar. Það er ekki gagnrýni á ríkisstjórnina. Það er bara fyrri partur einhverrar vísu sem verður að botna og klára. Það getur vel verið að við þurfum að aðlaga okkur að eitthvað verri raunstöðu í hagkerfinu en þá tökum þá umræðu en látum hana ekki snúast um hagspárnar. Spyrjum okkur frekar að því hvernig við ætlum að taka á því.