149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svara því bara svipað og ég sagði áðan. Ég tel að verði gerðir kjarasamningar umfram það sem gert er ráð fyrir í áætluninni verði ríkisstjórnin að bregðast við því. Það er alveg augljóst mál, það verður gert, ég held að það liggi alveg fyrir. Við höfum ekki samið umfram eitthvað hér á árum áður. Við höfum oft staðið frammi fyrir því að semja við ríkisstarfsmenn og við höfum alltaf gert áætlanir á hverjum tíma, þ.e. hver ríkisstjórn.

Verði samningar umfram það sem hér er gert ráð fyrir verðum við að horfast í augu við að þurfa að takast á við það. Ég vil ekki segja fyrir fram að það verði gert eingöngu með niðurskurði hjá öllum þeim stofnunum sem um er að ræða. Ég held að við hljótum að geta brugðist við með öðrum hætti. Auk þess er töluvert fé í varasjóði sem við gætum þá hugsanlega nýtt okkur ef það verður eitthvað umfram það sem hér er undir.