149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[15:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég eyddi helginni í að lesa fjármálaáætlun sem nú er úrelt. (Gripið fram í.) Nú er ég að halda ræðu um fjármálaáætlun sem er úrelt, 469 úreltar blaðsíður. Þegar ég segi að fjármálaáætlun sé úrelt er það ekki vegna frétta helgarinnar um vandamál WOW. Það voru ansi miklar líkur á því að forsendur hagspár, sem fjármálaáætlun byggir á, væru brostnar um leið og hagspáin var gefin út óháð því hvernig færi fyrir flugfélaginu.

Óvissa um loðnu, kjarasamninga og flugvélar er samt ekki ástæðan fyrir því að þessi fjármálaáætlun er úrelt. Þessi fjármálaáætlun er úrelt af því að hún inniheldur nákvæmlega ekki neitt haldfast kostnaðarmat á stefnu stjórnvalda. Það kemur fram á kristaltæran hátt í yfirferð um helstu útgjaldamálin í fjármálaáætlun, t.d. á bls. 102, á málefnasviði dómstóla, með leyfi forseta:

„Þá hækkar útgjaldasvigrúm málefnasviðsins um 30 millj. kr. árið 2022 og um aðrar 30 millj. kr. árið 2023 en ekki hefur verið ákveðið í hvaða verkefni því verður ráðstafað.“

Enn fremur segir á bls. 104, á málefnasviði réttinda einstaklinga, trúmála og stjórnsýslu dómsmála, með leyfi forseta:

„Þá hækkar útgjaldasvigrúm málefnasviðsins um 125 millj. kr. árið 2022 og um aðrar 125 millj. kr. árið 2023 en ekki hefur verið ákveðið í hvaða verkefni því verður ráðstafað.“

Ég hef talað áður um að fjármálaáætlun og fjárlög þar sem stefna stjórnvalda er ekki kostnaðarmetin sé eins og nokkurs konar ávísun á handhafa: Hérna er fullt af peningum, gerðu það sem þér sýnist.

Þetta gengur hins vegar skrefinu lengra, hérna er ekki verið að fjalla um verkefni sem vantar verðmiða á, hérna er verðmiði án verkefna og ég hef engan áhuga á að kaupa verðmiða.

Ég hef spurt þeirrar spurningar áður hvernig Alþingi eigi að geta samþykkt fjármálaáætlun þar sem stefna stjórnvalda er ekki kostnaðarmetin. Af hverju ættum við að samþykkja fjárheimildir upp á hundruð milljarða án þess að geta útskýrt nokkuð nákvæmlega hvernig þeim milljörðum verður varið? Við þá spurningu bæti ég: Af hverju ætti Alþingi að samþykkja fjármálaáætlun þar sem er beðið um peninga í ekki neitt?

Fjárlög 2019 voru byggð á fjármálaáætlun 2019–2023 en lentu í niðurskurðarhnífnum eftir að nóvemberhagspáin tók dýfu niður á við. Fjármálaáætlun 2020–2024 er byggð á febrúarspá og nú lítur út fyrir að áætlunin lendi líka undir hnífnum. Það sem ég hef áhyggjur af og ástæðan fyrir því að ég tel þessa fjármálaáætlun vera úrelta frá fyrsta degi, óháð því hvað er að gerast í hagkerfinu, er að það er ómögulegt að sjá hvaða áhrif hagsveiflur hafa á ríkisfjármálin. Hvar myndum við bæta í ef svigrúm væri? Hvar myndum við skera niður ef kreppir að? Hvaða verkefni eru neðarlega á forgangslista hvers málefnasviðs? Hvað kostar stefna stjórnvalda?

Verður niðurskurður aftur afsakaður sem „tafir“ á framkvæmdum vegna byggingar spítala eða hjúkrunarheimila? Verða aftur „tafir“ á kerfisbreytingum í lífeyriskerfinu? Spurningin er bara einföld: Hverjir verða látnir sitja á hakanum í þetta skiptið?

Mér finnst algerlega óboðlegt að ég þurfi að spyrja þessarar spurningar því að svarið á að sjálfsögðu að vera í fjármálaáætlun eins og lagt er upp með í 20. gr. laga um opinber fjármál. Þar er sérstaklega fjallað um nýtingu fjármuna í tengslum við stefnu stjórnvalda og er útskýrt sem svo í greinargerð laganna, með leyfi forseta:

„Í þriðja lagi felst í stefnumótun ákvörðun um hvaða leið skuli fylgt til að ná fram settum markmiðum. Hér þarf að huga að kostnaði, áhrifum og ávinningi hverrar leiðar fyrir sig og bera saman ólíkar forsendur þeirra.“

Þetta er ekki gert. Það vantar allar upplýsingar um kostnað. Hvað kostar t.d. tilraunaverkefni um samstarf við önnur þjónustukerfi um eflingu þjónustu við viðkvæmasta hóp ungra atvinnuleitenda? Hvað kosta sértækar aðgerðir af hálfu stjórnvalda til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda? Eða hvað mun það kosta okkur að fara ekki í þá aðgerð? Hvað kostar að koma á fót öflugum sjóði sem styrkir nýsköpunar- og þróunarverkefni í matvælaframleiðslu?

Ég ætla ekki að gera lítið úr þessum verkefnum, þau eru mjög þörf og munu skila okkur betri lífskjörum til framtíðar, en það á ekki að vera erfitt að segja okkur hversu mikið verkefnin kosta, í það minnsta. Það er oft erfitt að greina áhrif og ávinning en í það minnsta segið okkur hvað þetta kostar. Það er algjörlega nauðsynlegt fyrir allt sem lög um opinber fjármál byggja á. Við þurfum kostnaðaráætlun í fjármálaáætlun til að þess sjáist merki í fjárlögum. Við þurfum kostnaðaráætlun til að sjá það í ársskýrslum ráðherra hvort verkefnið skilaði tilætluðum árangri miðað við tilkostnað. Það er meira að segja betra að hafa ónákvæma kostnaðaráætlun en enga kostnaðaráætlun. Þá getum við a.m.k. gert betur næst. Ef við byrjum ekki einu sinni getum við aldrei gert betur.

Áður en ég held áfram langar mig til að minnast á það sem mér finnst vera vel gert. Það er ekkert svo illa gert að ekki sé hægt að hrósa fyrir eitthvað. Það er búið að bæta við sviðsmyndagreiningu. Hún er áhugaverð og velkomin viðbót. Meira af svona. Stefna um stafrænt Ísland. Frábært. Verkefni um endurmat útgjalda. Æðislegt. Átak á sviði nýsköpunar. Snilld. Meiri notkun á samráðsgátt og lenging fæðingarorlofs. Vel gert. Flest af þessum verkefnum eru sjálfsögð en auðvitað má hrósa því þegar loksins er byrjað á þeim.

Nú að málum málanna, kjaramálum. Stjórnvöld sitja nú í súpu fyrri ríkisstjórnar sem brást ekki við gríðarlegum launahækkunum kjararáðs. Hægt er að reyna að útskýra sig fram hjá hækkununum með því að vísa í viðmið á mismunandi árum eða frystingu launa síðan þá eða hvað sem mönnum dettur í hug, en engum hefur tekist að útskýra óréttlætið sem er í því að hækka laun þingmanna um tugi prósenta í einu skrefi. Þetta óréttlæti, sem og ýmsar aðrar launaákvarðanir hjá opinberum aðilum síðan þá, er önnur rót vandans í kjarabaráttu dagsins í dag. Hin rótin er tengd húsnæði en viðbrögð stjórnvalda hafa þar verið lítil og sein.

Í fjármálaáætlun er fjallað um hvernig kaupmáttur hefur aukist um þriðjung frá árinu 2013 og því slegið fram á sama tíma að óvíða sé tekjujöfnuður meiri en hér á landi. Á sama tíma hefur leiguverð hækkað um 55%, kaupverð um 60% en launavísitalan um 43,6%. Það getur vel verið að einhver meðalkaupmáttur hafi aukist um þriðjung, en þessar tölur sýna svart á hvítu að meðal þeirra launahópa þar sem húsnæðisliðurinn vegur þungt hafa hækkanir á húsnæðismarkaði komið harkalega niður. Það er frekar augljóst að laun þeirra sem eru nú með 300.000 kr. á mánuði, og hafa hækkað um 65.000 kr. í útborguðum launum, tapa kaupmætti þegar 85 fermetra íbúðin í Breiðholti hefur hækkað um 75.000 kr. á mánuði í leigu. Þá er ég meira að segja bara að nota tölur frá fyrri hluta 2017. Leigan hefur hækkað meira síðan þá.

Því er hægt að segja ýmislegt um hækkun á kaupmætti og tekjujöfnuð í fjármálaáætluninni, en það er líka hægt að draga ýmsar ályktanir um það hverjir hafa fengið þennan kaupmátt á undanförnum árum. Það er ekki láglaunafólkið sem er að krefjast hærri launa. Það hefur þurft að horfa upp á aukna skattbyrði, hækkandi húsnæðiskostnað, tugprósenta launahækkanir þingmanna og ráðherra, skerðingar og er svo bara ásakað um að vera geðveikt að sjá ekki hvað ástandið er gott á Íslandi. Já, það er gott. Það er gott fyrir þingmenn. Það er gott fyrir ráðherra. En hversu gott verður það þegar höfrungahlaupið hefst? Það hefst óhjákvæmilega af því að það verður líka að meta menntun til launa. Fólk sem sækir sér menntun og fórnar fyrstu starfsárunum í lífeyrisgreiðslur og tekjur verður a.m.k. að geta unnið það tap til baka. Hinn möguleikinn er að lágtekjufólk hafi ekki efni á þaki yfir höfuðið. Ég efast um að sá valmöguleiki endi vel.

Þetta er staðan sem við búum við. Gríðarlegur vöxtur í ferðamennsku og meðfylgjandi vaxtarverkir. Ferðamennskan hefur vissulega dregið okkur hratt upp úr hrunárunum og hleypt lífi í byggðir víða um land. Við höfum hins vegar ekki haft bolmagn til þess að taka á móti því ferðamannaflóði sem hefur valdið tjóni á náttúruperlum með átroðningi og tekið frá dágóðan hluta húsnæðismarkaðarins í gegnum deilihagkerfið. Afleiðingin varð skortur á húsnæði og hækkandi húsnæðisverð sem hefur mest áhrif á láglaunafólk. Áhrif sem leiddu til baráttu um kjaraleiðréttingu til þess að fólk hafi efni á að borga fyrir þak yfir höfuðið.

Núverandi ástand í kjaramálum er afleiðing aðgerðaleysis fyrri ára, aðgerðaleysis þar sem húsnæðisvandinn var ekki tekinn nægilega alvarlega, aðgerðaleysis þar sem launahækkanir þingmanna og ráðherra voru ekki teknar nægilega alvarlega. Píratar voru með lausnir. Í skuggafjárlögum fyrir kosningar 2016 lögðu Píratar til 11 milljarða í íbúðauppbyggingu strax á árinu 2017, þremur árum fyrr en núna og mun meira í raun og veru. Píratar vildu einnig, einir flokka, endurskoða ákvörðun kjararáðs, alveg eins og fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, gerði vegna kjaradóms.

Þess vegna erum við hérna núna, af því að við hlúðum ekki að rótunum. Þess vegna erum við að hrapa niður úr skýjunum og það sem mætir okkur er ekki blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf sem er byggt upp í gegnum nýsköpun vísinda, verksvits og lista, heldur kjarabarátta og loðnuleit. Þess vegna erum við með úrelta fjármálaáætlun þar sem stefnan er ekki sett fram á veginn heldur eltir skottið á sjálfri sér, fjármálaáætlun þar sem tugir milljóna eru teknar frá í verkefni sem er ekki búið að ákveða hver eru, fjármálaáætlun sem enginn veit hvað kostar og ef einhver veit það þorir sá ekki að segja Alþingi það.

Við glímum við úrelt stjórnmál, stjórnmál fortíðarinnar sem rotta sig saman valdanna vegna, stjórnmál samtryggingarinnar sem hafa svo margt að fela, stjórnmál sem ala á vantrausti og axla aldrei ábyrgð fyrr en skaðinn er orðinn óbætanlegur, stjórnmál sem þora ekki að taka skrefin inn í framtíðina með nýrri stjórnarskrá, hönd í hönd með öllum Íslendingum, stjórnmál sem þora ekki að deila valdinu með landsmönnum. Við búum í úreltu kerfi sem þjónar einungis valdhöfum sem vilja breyta sem minnstu sem hægast, hægar en samfélagið breytist í kringum þá. Þess vegna fáum við úrelta fjármálaáætlun.