149. löggjafarþing — 84. fundur,  26. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[17:09]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Gagnrýni mín varðandi aðhaldsleysi ríkisfjármálanna á undanförnum árum snýr ekkert endilega að einstökum verkefnum eða forgangsröðun. Sjálfur er ég hlynntur lengingu á fæðingarorlofi, svo dæmi sé tekið. Ég er einstaklega hrifinn af áformum um aukinn stuðning við nýsköpun, hef reyndar ýmsar aðrar hugmyndir en þessi ríkisstjórn um það hvað gæti gagnast nýsköpun í landinu langbest. Það væri t.d. alvörugjaldmiðill sem útflutningsfyrirtækin okkar gætu stuðst við því að það er kannski sveiflan í gjaldmiðlinum og í raun og veru sú staðreynd að við notum útflutningsgreinarnar okkar sem sveiflujafnara sem þýðir að hér hefur ekkert þrifist í útflutningi annað en það sem er beinlínis ankerað við, getum við sagt, landgrunnið okkar, þ.e. sjávarútvegur, orkufrekur iðnaður og nú síðast ferðaþjónustan. 85% útflutnings okkar undanfarin 20–30 ár hafa statt og stöðugt verið bundin við auðlindagreinar. Það hefur enginn vöxtur verið í sprota- og tæknigeiranum sem heitið getur á undanförnum þremur árum, svo dæmi sé tekið. Margt gætum við gert þar annað en bara að setja ríkisfé í.

Skortur á ráðdeild í rekstri ríkissjóðs á hverjum tíma leiðir til þess að við sinnum ekki þeirri stöðu og viðvarandi hagræðingu sem alltaf á að vera í gangi, eins og er í gangi í öllum rekstri, alla vega þegar maður horfir til atvinnulífsins. Það er alltaf verið að leita leiða til að gera hlutina betur og hagkvæmari. Ég held að það skorti verulega á í rekstri ríkisins hvað það varðar og það séu endalaus tækifæri til þess að veita fyllilega sambærilega þjónustu og stuðning við íbúa landsins en með minni tilkostnaði. En þegar öll áhersla er á að auka útgjöld þá verður voðalega lítil áhersla eftir á að gera það með skilvirkari hætti.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns verð ég eiginlega að koma að henni í seinna svari.